Fótbolti

Utan vallar: Ör­laga­ríkt ein­vígi varð til þess að Hafnar­fjörð má nú finna í Aachen

Aron Guðmundsson skrifar
Eitt litið saklaust einvígi í Evrópu gegn FH vatt upp á sig og tengist nú leikstað íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta sem mætir Þýskalandi í Aachen á morgun
Eitt litið saklaust einvígi í Evrópu gegn FH vatt upp á sig og tengist nú leikstað íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta sem mætir Þýskalandi í Aachen á morgun Vísir/Samsett mynd

Hver hefði trúað því að eitt sak­laust ein­vígi við lið FH árið 2004 hefði haft svo gríðar­mikla þýðingu að heima­bær fé­lagsins, Hafnar­fjörður, er nú stór hluti af starfi eins af rót­grónu knatt­spyrnu­fé­lögum Þýska­lands? Svarið er lík­legast fáir en stað­reyndin er hins vegar sú að hér í Aachen, borg í vestur­hluta Þýska­lands, má finna Hafnar­fjörð.

Aron Guð­munds­son skrifar frá Aachen í Þýska­landi.

Ís­lenska kvenna­lands­liðið í knatt­spyrnu leikur á morgun mikil­vægan leik við Þýska­land í undan­keppni EM 2025 á Tivoli leik­vanginum í Aachen, heima­velli knattspyrnuliðsins Alemannia Aachen. Um er að ræða leik liðanna í 2.um­ferð undan­keppninnar en bæði Ís­land og Þýska­land unnu sína leiki í fyrstu um­ferð.

Sveindís Jane fagnar marki sínu gegn Póllandi í 3-0 sigri Íslands í fyrstu umferð undankeppni EM 2025.vísir / hulda margrét

Rótgróið félag í kröggum

Alemannia Aachen er kannski ekki þekktasta þýska knatt­spyrnu­félagið en er þó rót­gróið fé­lag sem hefur lengst af, undan­farna ára­tugi, spilað í þýsku B-deildinni.

Það er að segja allt þar til ársins 2012 þegar að fé­lagið féll tvisvar sinnum á tveimur tíma­bilum og fann sig allt í einu svæðis­deild Vestur-Þýska­lands þar sem að liðið hefur verið síðan þá.

Það í bland við fjár­hags­erfið­leika hefur gert fé­laginu erfitt fyrir í því verk­efni sínu að rétta úr kútnum.

Hins vegar minnast stuðnings­menn Alemannia Aachen með hlýju tíma­bilsins 2003/2004 og 2004/2005. Fyrra tíma­bilið, þá sem B-deildar lið, komst Alemannia alla leið í úr­slita­leik þýska bikarsins og lagði á leið sinni þangað stór­veldi Bayern Munchen að velli auk annarra liða úr þýsku úr­vals­deildinni.

Það ætlaði allt um koll að keyra þegar að Alemannia Achen sló út þýska stórveldið Bayern Munchen í þýska bikarnum á sínum tíma í leið sinni í átt að úrslitaleiknum.Vísir/Getty

Lið Wer­der Bremen átti þó eftir að standa uppi sem þýskur bikar­meistari en það mætti í raun segja að Alemannia Aachen hafi verið hinn raun­veru­legi sigur­vegari. Þar sem að Wer­der Bremen stóð einnig uppi sem Þýska­land­smeistari varð raunin sú að Alemannia Aachen, B-deildar liðið, hlaut eitt Evrópu­sæti Þýska­lands.

Sögulegt einvígi við FH

Grein úr Fréttablaðinu árið 2004 um úrslitin í leik FH og Alemannia Aachen í UEFA bikarnumTimarit.is

Liðið tók þar með þátt í UEFA-bikarinn tíma­bilið 2004/2005 og það er þar sem tengingin við FH kemur inn. Liðin mættust í fyrstu um­ferð keppninnar.

FH, sem var á þessum tíma þjálfað af Ólafi Jóhannes­syni, stóð uppi sem Ís­lands­meistari þetta tíma­bil með leik­menn á borð við Alan Borg­va­dt, Emil Hall­freðs­son, Heimi Guð­jóns­son, Atla Viðar Björns­son og Davíð Þór Viðars­son innan­borðs. En Hafn­firðingarnir réðu ekkert við leik­menn Alemannia Aachen heima á Ís­landi þar sem fyrri leikur liðanan fór fram Laugar­dals­velli.

Eftir 5-1 tap heima náðu FH-ingar jafn­tefli úti í Þýska­landi. Alemannia Aachen fór lengra á­fram í keppninni. Í raun alla leið í 32-liða úr­slit en búið er að sjá til þess að ein­vígið við FH gleymist seint úr minni stuðnings­manna fé­lagsins.

Hafnarfjörður og Alkmaar

Fyrir utan Tivoli-leik­vanginn hér í Aachen, heima­völl Alemannia, má finna tvo æfinga­velli sem bera báðir nafn með skír­skotun í Evrópu­ævin­týri Alemannia Aachen.

Annar völlurinn ber nafnið Alk­maar, í höfuðið á hollenska úr­vals­deildar­liðinu AZ Alk­maar, sem Alemannia mætti einnig í Evrópukeppni umrætt tímabil. Hinn völlurinn ber nafnið Hafnar­fjörður og vísar þar með í heima­bæ FH, sem er jafnan nefnt FH Hafnar­fjörður á er­lendri grundu.

Hafnarfjörður og Alkmaar, æfingavellir Alemannia Aachen fyrir utan Tivoli leikvanginn

Heldur betur skemmti­leg til­viljun en ís­lenska kvenna­lands­liðið æfir í dag á Tivoli-leik­vanginum í námunda við æfingavellina tvo. Spurning er hins vegar sú hvort það hefði verið heimilis­legra að æfa í Hafnar­firði?

Fyrir áhugasama má sjá helstu atriði úr fyrri leik FH og Alemannia Aachen hér fyrir neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×