Erlent

Fannst látin mánuði eftir að hafa gefið yfir­völdum upp ná­kvæm hnit

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Systir Nenigar segist reið, ekki síst þeim sem svaraði hjá 911 en kom hnitunum ekki til skila.
Systir Nenigar segist reið, ekki síst þeim sem svaraði hjá 911 en kom hnitunum ekki til skila. Lögreglan í Blythe í Kaliforníu

Amanda Nenigar, 26 ára, fannst látin í eyðimörkinni skammt frá Cibola í Arizona í Bandaríkjunum í síðustu viku. Leit hafði þá staðið yfir að Nenigar í um mánuð, allt frá því að hún hafði hringt í 911 og gefið upp hnitin að staðsetningu sinni.

Fjölskylda Nenigar tilkynnti að hennar væri saknað 28. febrúar síðastliðinn en daginn áður hafði hún hringt í 911 og greint frá því að hún væri týnd í eyðimörkinni. Sá sem svaraði aðstoðaði Nenigar við að finna hnitin að staðsetningu hennar í símanum en sendi símtalið svo áfram á lögregluna í Kaliforníu.

Ekkert virðist hins vegar hafa verið gert með hnitin og lögreglan í Kaliforníu leitað eftir lýsingum Nenigar. 

Það var ekki fyrr en rúmri viku eftir að Nenigar hringdi í 911 og að fjölskylda hennar tilkynnti að hennar væri saknað sem lögreglan í Arizona fékk símtalsupptökuna inn á sitt borð og fann bifreið Nenigar skammt frá þeim stað sem hnitin bentu á.

Nenigar var þá farin af vettvangi. Lík hennar fannst, eins og fyrr segir, í síðustu viku undir tré í um það bil 24 kílómetra fjarlægð frá bifreiðinni.

„Hún þurfti ekki að deyja,“ segir Marissa Nenigar, systir Amöndu, sem átti að minnsta kosti tvær dætur.

Fjölskylda hennar hyggst leita réttar síns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×