Fótbolti

Segist hafa skaðað líkama sinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Varane í baráttunni í vetur.
Varane í baráttunni í vetur. Robbie Jay Barratt/Getty Images)

Raphaël Varane, miðvörður Manchester United, segist hafa skaðað líkama sinn með því að spila stuttu eftir að hafa fengið heilahristing. Þá segist hann ekki leyfa börnum sínum að skalla boltann þegar þau eru að leika sér í fótbolta.

Hinn þrítugi Varane spilar í dag með Man United en gerði garðinn frægan með Real Madríd. Þar varð hann bæði spænskur meistari ásamt því að vinna Meistaradeild Evrópu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ofan á það varð hann heimsmeistari með Frakklandi áður en hann lagði landsliðsskóna á hilluna eftir 93 A-landsleiki.

Varane hefur glímt við mikil meiðsli á ferli sínum og hefur nú opinberað hversu illa það fór með hann að spila stuttu eftir að fá heilahristing.

Hann spilaði í 1-0 tapi Frakklands gegn Þýskalandi á HM 2014 aðeins nokkrum dögum eftir að hann fékk heilahristing. Sömu sögu er að segja þegar Real Madríd tapaði gegn Manchester City í Meistaradeild Evrópu árið 2020.

„Sjö ára sonur minn spilar fótbolta og ég ráðlegg honum að skalla ekki boltann. Fyrir mér er það mikilvægt. Þó það valdi ekki skaða strax þá vitum við hvaða langtíma áhrif það hefur. Regluleg högg á höfuðið geta haft slæmt áhrif.“

„Persónulega veit ég ekki hvort ég verði 100 ára gamall en ég veit að ég hef skaðað líkama minn. Kenna ætti ungu fólki skaðsemi þess að skalla boltann.“

Rannsóknir staðfesta að Varane hefur rétt fyrir sér og þá hefur verið rætt hvort það sé best að banna börnum að skalla boltann upp að vissum aldri.

Að endingu sagði Varane að læknateymi félaga þurfi að stíga inn í ef leikmenn hafi fengið heilahristing því íþróttafólk vill alltaf keppa. Miðvörðurinn sagði einnig að hann hefði misst af nokkrum leikjum Man United á leiktíðinni vegna einkenna eftir heilahristing.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×