Lífið

Grjótkrabbi sló í gegn á Akra­nesi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Margrét Bára Jósefsdóttir, gestur á matarmarkaðnum var mjög ánægð með hvernig grjótkrabbinn smakkaðist hjá Böðvari.
Margrét Bára Jósefsdóttir, gestur á matarmarkaðnum var mjög ánægð með hvernig grjótkrabbinn smakkaðist hjá Böðvari. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Grjótkrabbabollur, andaregg, hvítlaukssalt, túlipanar, sápur, broddur, pylsur, hakk og skyr eru vörur sem slá alltaf í gegn á matarmörkuðum þar sem bændur og búalið kynna sína framleiðslu sína fyrir neytendum.

Matarauður Vesturlands í samvinnu við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi stóð fyrir glæsilegum matarmarkaði nýlega í Breiðinni á Akranesi þar sem um þúsund manns mættu á nokkrum klukkutímum til að fá smakk hjá matarframleiðendum og versla hjá þeim allskonar gómsæti.

„Mér finnst líka ástæða til að segja frá því þó ég sé með exel skjalið á bak við þetta þá þurfum við að fá framleiðendur til þess að taka þátt, það skiptir máli, hvað á ég að segja, að þeir nenni og hafa viljann til þess að koma og kynna, selja og segja frá ástríðunni á bak við vörunni og svo þarf auðvitað neytendur líka því þessir tveir þættir þurfa að vera samhliða og ég er svo þakklát fyrir móttökurnar,” segir Hlédís Sveinsdóttir, verkefnisstjóri og einn stjórnandi markaðarins.

Hlédís Sveinsdóttir, verkefnisstjóri, sem var allt í öllum í kringum matarmarkaðinn hvað varðar skipulagningu og þess háttar. Hún er mjög ánægð með hvernig til tókst.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Við erum með geitaafurðir, geitur og garður, það eru pulsur og pate, ostar, sápur og krem og kasmír fiðu. Mér sýnist fólk elska þetta,” segir Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háfelli, sem tók þátt í markaðnum með sínu fólki.

„Við erum með nautakjöt og ull frá Hjarðarfelli. Það er tilbreyting að taka þátt í svona markaði, þetta er svona öðruvísi dagur frá hefðbundnum búskap,” segja þau Sigurbjörg Ottesen og Gunnar Guðbjörnsson, bændur á Hjarðarfelli.

Og það var hægt að fá allskonar smakk á markaðnum, meðal annars grjótkrabba.

„Já, ég er með grjótkrabba úr Faxaflóa, sem ég er búin að veiða. Ég er bara að kynna vöruna núna því ég er frumkvöðull en þetta er fyrsta skipti, sem ég kem með grjótkrabbann hérna fyrir almenning og það hefur engin sagt að þetta sé vont,” segir Böðvar Ingvarsson, grjótkrabbaveiðimaður.

Þorgrímur Einar, bóndi á Erpsstöðum í Dölum hafði meira en nóg að gera að afgreiða ís frá búinu.Magnús Hlynur Hreiðarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×