Innlent

Spænskir kokkanemar elda ís­lenskan salt­fisk

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Spænskir matreiðslunemar kepptust um að vera færasti saltfiskkokkur Spánar
Spænskir matreiðslunemar kepptust um að vera færasti saltfiskkokkur Spánar Aðsend

Íslenskur saltfiskur var í aðalhlutverki þar sem færasti saltfiskkokkur Spánar var valinn í Mérida á Spáni í vikunni. Keppnin var haldin í þriðja skipti í ár en 18 skólar frá öllum landshlutum Spánar tóku þátt að þessu sinni. Spánn er stærsti markaðurinn fyrir íslenskan saltfisk og er hann uppistaðan í mörgum vinsælum réttum þar í landi.

Spánn er í dag stærsti markaður heims fyrir íslenskan saltfisk, en Spánverjar hafa í mörg ár verið stórkaupendur Bacalao de Islandia. Þá þurfti til að mynda að gera undanþágu fyrir spænsk vín í áfengisbanninu sem lagt var á Ísland árið 1915, vegna þess að Spánverjar hótuðu að hætta kaupa af okkur saltfisk ef við vildum ekki kaupa af þeim vín. Spænsk vín fengu því undanþágu frá áfengisbanninu árið 1922 af ofangreindum hagsmunaástæðum.

Eins og fyrr segir var þessi matreiðslukeppni haldin í þriðja sinn í ár, en um 200 manns taka þátt ár hvert. Keppnin er hluti af markaðsverkefni Íslandsstofu „Seafood from Iceland“. Íslandsstofa er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs sem segja má að starfi við landkynningu Íslands í víðum skilningi. Sambærilegar keppnir fara árlega fram í Portúgal og á Ítalíu, sem einnig eru sólgin í íslenskan saltfisk.

Afrakstur eldamennskunnar lítur vel út.Aðsend

Hlutskörpust þetta árið var kokkaneminn Marta Oti frá ESHOB Barcelona, en hún fær í verðlaun draumaferðalag til Íslands.

Marta Oti frá Barcelona bar sigur úr býtum að þessu sinni, og hlaut hún draumaferðalag til Íslands í verðlaun.Aðsend

Mikil keppnis-og sköpunargleði einkenndi framlag nemanna, sem eru flestir á aldrinum 18-22 ára og að stíga sín fyrstu skref á þessum vettvangi. Hægt er að fylgjast með keppninni á instagram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×