Fótbolti

Lands­liðið komið á loft

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir okkar á leið upp í flugvélina sem ferjar þá til Póllands.
Strákarnir okkar á leið upp í flugvélina sem ferjar þá til Póllands. vísir/Stefán Árni

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta lagði nú síðdegis af stað frá Búdapest með kærar minningar eftir sigurinn góða gegn Ísrael í EM-umspilinu á fimmtudag.

Strákarnir okkar ferðast nú til Wroclaw í Póllandi, með leiguflugi, og ættu að vera lentir rúmlega 17 að staðartíma, eða eftir klukkan 16 að íslenskum tíma. Í pólsku borginni bíður þeirra úrslitaleikur við Úkraínu á þriðjudagskvöld.

Íslenski hópurinn hélt kyrru fyrir í Búdapest eftir sigurinn á fimmtudaginn og fór því aðra leið en Úkraínumenn sem strax á föstudagsmorgun, eftir að hafa slegið út Bosníu, ferðuðust frá Sarajevo til Wroclaw og hafa æft þar síðan.

Hópur íslenskra stuðningsmanna ferðast svo til Wroclaw í beinu flugi frá Íslandi á þriðjudagsmorgun, til að hvetja íslenska liðið.

Á morgun æfa bæði lið á Wroclaw-leikvanginum þar sem úrslitaleikurinn fer fram. 

Ráðgert er að æfing Íslands sé á milli klukkan 15 og 16 á morgun, og í kjölfarið er svo blaðamannafundur með Åge Hareide og einum leikmanna hans sem væntanlega verður fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson. Úkraínumenn æfa svo í kjölfarið og halda sinn blaðamannafund eftir að þeim íslenska lýkur.

Vísir heldur að sjálfsögðu áfram að flytja fréttir tengdar leiknum en flautað verður til leiks klukkan 19:45 á þriðjudagskvöld, að íslenskum tíma.


Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.


Tengdar fréttir

„Það vita allir að mín þrenna er töluvert flottari en Alberts var ágæt líka“

„Við erum alls ekki hræddir við þá. Við vitum auðvitað að þeir eru með frábæra leikmenn. Það er ekki alltaf það sem skiptir máli og maður þarf að vera með frábært lið líka. Þeir áttu gríðarlega erfiðan leik á móti Bosníu sem er gott lið líka,“ segir Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, sem missti af leiknum gegn Ísrael á fimmtudaginn.

Engin meiðsli að plaga Guðlaug Victor

Guðlaugur Victor Pálsson æfði ekki með íslenska landsliðinu í Búdapest í dag. Ástæðan fyrir því að hann æfði ekki var einfaldlega þreyta.

Albert mætir liðsfélaga og staðan 9-4 fyrir Úkraínu

Ljóst er að Ísland á fyrir höndum talsvert erfiðari leik á þriðjudaginn, gegn Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM í fótbolta, en þegar liðið sló út Ísrael með 4-1 sigri á fimmtudaginn.

Úkraína mætir Íslandi í úrslitaleiknum

Það er orðið ljóst að Úkraína mun mæta Íslandi í úrslitaumspilsleik fyrir Evrópumótið í sumar. Leikurinn hefði farið fram í Úkraínu en þar sem þeir geta ekki leikið heima fyrir mun leikurinn fara fram í borginni Wroclaw í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×