Fótbolti

Segir leik­menn vilja Sout­hgate við stjórn­völinn eins lengi og kostur er

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Maguire og Gareth Southgate eru bestu mátar.
Harry Maguire og Gareth Southgate eru bestu mátar. Alex Grimm/Getty Images

Miðvörðurinn Harry Maguire segir að leikmenn enska landsliðsins í knattspyrnu séu ánægðir með störf Gareth Southgate og vilji hafa hann sem lengst við stjórnvölinn.

Hinn 31 árs gamli Maguire hefur verið máttarstólpi í vörn Englands undanfarin ár. Hefur Southgate ávallt sett traust sitt á miðvörðinn þó svo að hann hafi ekki verið að spila með félagsliði sínu, Manchester United.

Southgate sjálfur hefur verið orðaður við Man United undanfarna daga en talið er að Jim Ratcliffe, nýr minnihlutaeigandi í enska félaginu, gæti skipt um þjálfara í sumar. Maguire vill þó ekki missa Southgate frá landsliði til félagsliðs.

„Við stefnum á að gera vel á EM næsta sumar, það er okkar helsta markmið í dag. Ef Gareth er maðurinn sem stýrir okkur til sigurs þá er viljum við hafa hann við stjórnvölinn eins lengi og mögulegt er.“

„Ég á í mjög góðu sambandi við hann. Ég hef verið hluti af árangrinum sem við höfum náð og þeim framfaraskrefum sem við höfum stigið sem þjóð. Ég er viss um að hann segir það sama, núna snýst allt um að vinna titil.“

„Ég veit ekki hvað gerist eftir EM. Ég veit ekki hvort hann (Southgate) viti hvað gerist eftir EM. Frá því hann tók við þá höfum við tekið gríðarlega stór skref fram á við og það er að mörgu leyti honum að þakka.“

Undir stjórn Southgate endaði England í 4. sæti á HM 2018 í Rússlandi, mátti þola tap í vítaspyrnukeppni í úrslitum EM 2020 og féll svo úr leik í 8-liða úrslitum á HM í Katar.

England mætir Brasilíu í vináttulandsleik síðar í dag. Útsending Vodafone Sport hefst klukkan 18.50 og leikurinn sjálfur tíu mínútum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×