Þetta segir Geir í aðsendri grein á Vísi en lögð verður fram tillaga um starfslokasamning við hann á bæjarstjórnarfundi á morgun.
Í grein sinni segir Geir að pólitík bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna hafi einkennt af því að „ sparka í starfsfólk bæjarins, afvegaleiða alla umræðu, halda ósannindum fram gagnvart bæjarbúum, brjóta trúnað, axla ekki ábyrgð á sínum fyrri kostnaðarsömu mistökum, vinna gegn hagsmunum bæjarbúa og hafa málefnalega nákvæmlega ekkert fram að færa annað en leiðindi.“
Leggja fólk í einelti
Geir segir það greinilegt að það hafi tekið á að eftir 16 ára samfellda meirihlutastjórn hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokks aðeins getað brugðist við með því að leggja fólk í einelti með von um það að komast aftur til valda í næstu kosningum.
„En megi ég ráðleggja bæjarbúum Hveragerðis eitthvað, þá er það að eyða ekki atkvæði sínu á D-listann með þetta fólk um borð, það er einfaldlega ekki þess virði,“ segir Geir í grein sinni.
Starfslok forverans margfalt dýrari
Þar ávarpar hann einnig áhyggjur minnihlutans af kostnaði vegna starfsloka hans en bendir þó á að starfslok forvera hans hafi og mun kosta bæinn margfalt meira en hans eigin. Hvað varðar starfslok hans segir Geir að þegar hann tók við hafi hans beðið mörg aðkallandi verkefni.
Hann segir staðreyndin sé sú að aldrei hafi jafn mikið verið gert á jafn stuttum tíma og fer yfir þau verkefni sem hann hefur komið að og hrint í framkvæmd á þeim tíma. Meðal þeirra er til dæmis stækkun grunn- og leikskólans, verkáætlun í fráveitumálum, samningar um Árhólma, nýtt skipurit, stofnun nýs fræðslu- og velferðarsviðs og margt fleira.
„Ég hefði að sjálfsögðu kosið að klára alla þá vinnu sem hafin var en ég og fulltrúar meirihlutans höfðum ólíka sýn á mitt hlutverk sem bæjarstjóra sem ráðnum framkvæmdastjóra bæjarfélagsins. Þetta skref var því það besta í stöðunni og í raun léttir að komast út úr því eitraða umhverfi sem minnihlutanum hefur tekist að skapa,“ segir Geir að lokum í grein sinni og óskar meirihlutanum og starfsfólki bæjarins velfarnaðar í starfi.