Fótbolti

Náðist loksins þegar hann fór í æfinga­ferð til Dúbaí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Quincy Promes spilar líklega ekki aftur fótbolta fyrr en í fyrsta lagi eftir árið 2030. Þá verður hann reyndar orðinn 39 ára gamall.
Quincy Promes spilar líklega ekki aftur fótbolta fyrr en í fyrsta lagi eftir árið 2030. Þá verður hann reyndar orðinn 39 ára gamall. Getty/Mikolaj Barbanell

Æfingaferð með rússneska félaginu Spartak Moskvu reyndist hollenska fótboltamanninum Quincy Promes dýrkeypt.

Það var þó aðeins honum sjálfum að kenna.

Promes var dæmdur í sex ára fangelsi í Hollandi í síðasta mánuði fyrir kókaínsmygl. Hann hafði aftur á móti ekki verið handtekinn þar sem hann var í skjóli í Rússlandi.

Rússar framseldu Promes ekki til hollenska yfirvalda. Hollendingar höfðu hins vegar lýst eftir honum út um allan heim.

Promes yfirgaf Rússland þegar Spartak liðið fór í æfingaferð til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Hollensk yfirvöld nýttu tækifærið og hann hefur verið í stofufangelsi á lúxushóteli í Dúbaí síðan hann var handtekinn í byrjun mánaðarins. Hollensk yfirvöld vinna nú markvisst að því að fá hann framseldan til Hollands þar sem Promes mun í framhaldinu hefja fangavist sína.

Promes er 32 ára gamall og hefur spilað yfir fimmtíu landsleiki fyrir Holland.

Hann varð uppvís að því að smygla samanlagt 1363 kílóum af kókaíni frá Brasilíu árið 2020 í gegnum belgísku borgina Antwerpen og inn í Holland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×