Íslenski boltinn

Ársmiðarnir rjúka út: „Það er allt brjálað“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gylfi Þór hefur hresst vel upp á ársmiðasölu á Hlíðarenda.
Gylfi Þór hefur hresst vel upp á ársmiðasölu á Hlíðarenda. Valur

Árskort á heimaleiki hjá Val í sumar rjúka út í ljósi nýjustu tíðinda. Gylfi Þór Sigurðsson samdi við félagið í morgun.

Óhætt er að segja að sala á fótboltakortum hjá Knattspyrnudeild Vals hafi tekið kipp í morgun þegar félagið kynnti um komu Gylfa Þórs Sigurðssonar til félagsins.

Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri Vals, er með karlaliði félagsins í för í æfingaferð á Spáni og hefur unnið hörðum höndum að því að ná samningum við Gylfa síðustu daga. Hann var léttur þegar Vísir sló á þráðinn síðdegis.

„Það er allt brjálað og við erum að setja sölumet í ársmiðum eins og staðan er núna. Það virðist sem mannskapurinn sé spenntur fyrir komu Gylfa. Það er auðvitað ekkert skrýtið, deildin er að fara að lyftast á næsta plan með hans komu,“ segir Styrmir.

Styrmir Þór Bragason er framkvæmdastjóri Vals.Valur

Valsmenn eru með afslátt á ársmiðunum sem verður í gildi næstu daga og það virðist skila sér samhliða tíðindunum. Ársmiðarnir eru á 50 prósenta afslætti og kosta því aðeins 9.500 kr. sem er töluvert lægra en sést annars staðar í Bestu deildinni.

„Það er algjör metsala á kortum og rauk af stað í dag þegar tilkynnt var að Gylfi væri að koma. Við vonumst auðvitað til að sjá foreldra mæta með iðkendum á völlinn. Þetta er einstakt tækifæri.“

„Ég fékk tölur í hádeginu. Við erum að sjá tölur sem við höfum aldrei séð. Það sem við seldum fyrir hádegi í dag er á við það sem við seljum á einu ári,“ segir Styrmir.

Valsmenn hefja leik í Bestu deildinni þann 7. apríl er ÍA kemur í heimsókn á Hlíðarenda og kann að vera að Gylfi þreyti frumraun sína þá.

Besta deildin hefst degi fyrr með leik Víkings og Stjörnunnar. Öllu mótinu verður fylgt eftir á Vísi og allir leikir sýndir beint á rásum Stöðvar 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×