Fótbolti

Tuchel tábraut sig rétt fyrir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Tuchel var ánægður með spilamennsku sinna manna í Bayern München í gær.
Thomas Tuchel var ánægður með spilamennsku sinna manna í Bayern München í gær. Getty/Alex Grimm

Thomas Tuchel stýrði Bayern München inn í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir 3-0 sigur á Lazio í seinni leik liðanna. Bayern tapaði fyrri leiknum og sýndi allt annan og betri leik í gærkvöldi.

Tuchel náði heldur betur að kveikja í sínum mönnum fyrir leikinn en það kostaði sitt eins og hann sagði frá eftir leikinn.

Bayern var komið í 2-0 fyrir hálfleik eftir mikla yfirburði og eftir annað mark Harry Kane í leiknum, sem kom eftir rúmlega klukkutíma leik, var orðið ljóst hvernig færi.

„Ræðan fyrir leik kostaði mig hægri tána. Ég fékk meðhöndlun á staðnum en ég þorði ekki að fara úr skónum af því að ég óttaðist það að geta ekki komist í hann aftur,“ sagði Thomas Tuchel við Sky Sports eftir leikinn.

Tuchel var svo æstur í ræðu sinni inn í klefa að hann sparkaði í kassa með fyrrnefndum afleiðingum.

„Leikmenn hljóta hafa velt því fyrir sér af hverju ég sat á bekknum allar níutíu mínúturnar,“ sagði Tuchel léttur enda mikilli pressu af honum létt með þessum góða sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×