Innlent

Funda með nem­endum vegna um­mæla kennara: „Við erum eigin­lega slegin yfir þessu“

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Við erum eiginlega slegin yfir þessu,“ segir skólameistari ML.
„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Við erum eiginlega slegin yfir þessu,“ segir skólameistari ML. Vísir/Vilhelm

Jóna Katrín Hilmarsdóttir, skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni, segist slegin yfir ummælum kennara skólans, Helga Helgasonar, um framlag Bashar Murad í Söngvakeppni sjónvarpsins. Málið sé litið alvarlegum augum og dagur skólastjórnar ML hefur að sögn Jónu farið í að funda um ummælin.

Helgi gaf til kynna á Facebook að RÚV myndi hagræða úrslitunum Bashar í hag og kallaði hann „grenjandi illa skeindan Palestínuaraba“. Hann hélt því jafnframt fram að Bashar væri að taka þátt í keppninni fyrir hönd Hamas-samtakanna.

Þetta kom fram í færslu sem hann skrifaði í Facebook-hóp Íslensku þjóðfylkingarinnar, en Helgi er fyrrverandi formaður og frambjóðandi flokksins.

Jóna segir að von sé á yfirlýsingu frá skólanum vegna færslunnar. 

Jafnframt eigi að funda með öllum nemendum og starfsfólki skólans í fyrramálið þar sem að fjallað verði um málið.

„Við í stjórn skólans höfum, skiljanlega kannski, eytt deginum í að fjalla um þetta. Við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Við erum eiginlega slegin yfir þessu.“

Jóna segist ekki geta tjáð sig um stöðu kennarans að stöddu, en vísar til tilkynningarinnar sem verður gefin út á morgun.

„Þetta er bæði viðkvæmt og erfitt. Eins og fólk er að verða vitni að er þetta mjög eldfimt í samfélaginu og úti um allt. Fólk er bæði að segja stórt og ljótt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×