Eftir góða byrjun undir stjórn Freys þá hafði Kortrijk tapað þremur leikjum í röð, það er þangað til í kvöld. Abdelhak Kadri frá Alsír reyndist hetja liðsins en hann lagði fyrsta mark leiksins upp á Isaak Davies.
Gestirnir jöfnuðu metin og staðan 1-1 í hálfleik. Kadri kom Kortrijk yfir á nýjan leik um miðbik síðari hálfleiks en gestirnir jöfnuðu á nýjan leik tveimur mínútum síðar. Það var svo þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka sem heimamenn fengu vítaspyrnu. Kadri fór á punktinn og tryggði Kortrijk gríðarlega dýrmætan 3-2 sigur.
#KVKRWD #AltijdEenKerel pic.twitter.com/LJBKzWAh7q
— KV Kortrijk (@kvkofficieel) March 3, 2024
Eftir leik kvöldsins er Kortrijk áfram á botni deildarinnar, nú með 21 stig líkt og Íslendingalið Eupen sem tapaði 1-0 gegn Anderlecht fyrr í dag. Þar spilaði Guðlaugur Victor Pálsson allan leikinn í miðverði og Alfreð Finnbogason kom inn af bekknum undir lok leiks.
RWDM svo með 23 stig í 14. sæti á meðan Jón Dagur Þorsteinsson og félagar í OH Leuven eru með 26 stig í 13. sæti.