Innlent

Nem­endur geti nú skráð sig í nám við Bif­röst ó­háð fjár­hag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Margrét Jónsdóttir Njarðvík og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í gær.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í gær. Bifröst

Tekin hefur verið ákvörðun um að fella niður skólagjöld í Háskólanum á Bifröst. Rektorinn segir mikilvægt að nemendur geti valið sér nám óháð fjárhag, en fullt meistaranám við skólann hefur kostað hálfa milljón. 

Í síðasta mánuði tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, að sjálfstætt starfandi háskólum yrði boðið að fá óskert frjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda. Listaháskóli Íslands tilkynnti samdægurs um niðurfellingu gjalda frá og með næsta hausti, en nú hefur Háskólinn á Bifröst bæst í hópinn.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor á Bifröst, segir um vatnaskil að ræða.

„Því nú geta nemendur, óháð fjárhag, skráð sig í nám við háskólann á Bifröst, og við kennum margar námsgreinar sem eru ekki kenndar í öðrum háskólum á Íslandi,“ segir Margrét.

Mikilvægt sé að geta valið sér háskólanám óháð fjárhag, en hingað til hafa nemendur í fullu meistaranámi greitt tæplega hálfa milljón króna á hverju misseri.

„Háskólinn á Bifröst hefur verið í fararbroddi í fjarnámi á Íslandi og það þýðir að fólk, óháð búsetu eða aðstöðu í lífinu, hvort það er barnalán eða vinna, þá getur fólk núna skráð sig í háskólanám hjá okkur, án þess að þurfa að borga skólagjöld.“

Líkt og áður sagði tilkynntu stjórnendur Listaháskóla Íslands samdægurs að skólagjöld yrðu afnumin. Skólarnir eru ekki í sama reikniflokki, og því áhættusamara fyrir Bifröst að slá til.

„Við þurfum að innrita 300 nemendur í haust, til þess að þetta gangi upp. En við vitum líka að háskólanemar munu greiða atkvæði með fótunum. Við vildum bara reikna dæmið mjög vel og vera þess fullviss að þetta myndi ganga upp. En við tökum áhættu sem er skemmtileg, því við vitum að skólinn mun fyllast.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×