Vinícius kom til bjargar eftir að Real lenti tveimur mörkum undir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vini Jr. skoraði bæði mörk Real í kvöld.
Vini Jr. skoraði bæði mörk Real í kvöld. EPA-EFE/Ballesteros

Real Madríd, topplið La Liga – spænsku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu – náði í stig gegn Valencia eftir að lenda 2-0 undir.

Með sigri hefði Real getað stungið endanlega af á Spáni en það voru óvænt heimamenn sem skoruðu tvívegis á þriggja mínútna kafla í fyrri hálflei. Hugo Duro kom heimamönnum yfir og Roman Yaremchuk kom Valencia í 2-0 þegar hálftími var liðinn.

Brasilíumaðurinn Vinícius Junior minnkaði muninn eftir sendingu frá samlanda sínum Rodrygo í blálok fyrri hálfleiks. Það var svo Vini Jr. sem jafnaði metin þegar stundarfjórðungur lifði leiks eftir undirbúning varamansins Brahím Diaz.

Gríðarlega miklu var bætt við leikinn sem tafðist vegna skelfilegra meiðsla Mouctar Diakhaby en leikmaður Real féll þá á löppina á miðvarðarins með þeim afleiðingum að hún bognaði öll í rangar áttir og verður að teljast kraftaverk ef Diakhaby er ekki illa meiddur.

Real skoraði reyndar það sem hefði verið sigurmarkið en dómari leiksins var búinn að flauta leikinn af áður en boltinn endaði í netinu. Það fór því svo að leik kvöldsins á Mestalla lauk með 2-2 jafntefli.

Stigið sem Real fékk í kvöld þýðir að liðið er nú með 7 stigum meira en Girona sem á þó leik til góða í 2. sætinu. Barcelona er 9 stigum þar á eftir en einnig með leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira