Innlent

Mat á skemmdum eigna í Grinda­­vík nánast lokið

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hjúkrunarheimilið í Grindavík er meðal þeirra húsa sem hafa skemmst hvað mest.
Hjúkrunarheimilið í Grindavík er meðal þeirra húsa sem hafa skemmst hvað mest. Vísir/Vilhelm

Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) hafa lokið við að skoða og meta skemmdir á flestum íbúðar- og atvinnueignum í Grindavík. Unnið er að kostnaðarmati og gerð matsgerða en fyrstu húsnæðiseigendur bæjarins fá matsgerðir kynntar í lok næstu viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef NTÍ. Þar segir að í kringum þrjátíu matsmenn hafi sinnt þessu starfi síðustu vikur. 

Við yfirferð NTÍ kom í ljós að umfang skemmda á fasteignum er ekki mikið á þeim svæðum fjær sprungum og misgengjum í bænum. Auðunn Elíson, verkefnastjóri tjónamats hjá Verkís, segir eðli tjónsins hafa komið á óvart.

„Miðað við þær miklu jarðhræringar sem orðið hafa í Grindavík síðustu mánuði hefur það komið okkur töluvert á óvart hversu lítið tjón er almennt á eignum í bænum að undanskildum þeim sem standa næst sprungum og misgengjum. Flestar eignir utan við sprungusvæði og misgengi eru tiltölulega lítið skemmdar. Þó höfum við séð að hús sem deila lóðamörkum geta verið nánast óskemmd á annarri lóðinni en altjón á hinni,“ er haft eftir Auðuni á vef NTÍ.

Viðgerðarkostnaður ýmsa húsa sem standa á og upp við sprungur er áætlaður hærri en vátryggingarfjárhæð. Eitthvað af því tjóni verður greitt sem altjón að undanskildum kostnaði við niðurrif og förgun. 


Tengdar fréttir

Frumvarp vegna húsnæðis í Grindavík væntanlegt síðar í vikunni

Forsætisráðherra væntir þess að frumvarp um uppgjör á íbúðarhúsnæði í Grindavík verði kynnt síðar í vikunni. Hún segir frumvarpið lúta að því að fólki verði gert kleift að koma sér fyrir á nýjum stað, óháð því hvort hús þeirra hafi verið metin sem tjónuð af Náttúruhamfaratryggingu eða ekki.  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×