Fótbolti

Ellefu mörk og tvö rauð í leikjum kvöldsins í Lengjubikarnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Emil Atlason skoraði eitt af fjórum mörkum Stjörnunnar í kvöld.
Emil Atlason skoraði eitt af fjórum mörkum Stjörnunnar í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Þrír leikir fóru fram í riðlakeppni A-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld þar sem nóg var um að vera. Alls voru skoruð ellefu mörk og tvö rauð spjöld fóru á loft.

Í riðli 3 vann Stjarnan afar öruggan 4-0 sigur gegn HK á Samsungvellinum þar sem Helgi Fróði Ingason og Róbert Frosti Þorkelsson sáu um markaskorun heimamanna í fyrri hálfleik.

Róbert Frosti bætti svo öðru marki sínu við snemma í síðari hálfleik áður en Emil Atlason gulltryggði 4-0 sigur Stjörnunnar á 71. mínútu.

Þetta var fyrsti sigur Stjörnunnar í Lengjubikarnum á þessu tímabili og liðið er nú með fjögur stig í fjórða sæti riðils 3, þremur stigum meira en HK sem situr á botninum.

Í sama riðli mættust svo Njarðvík og Fjölnir í Nettóhöllinni þar sem Kenneth Hogg í liði Njarðvíkur og Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, fengu báðir að líta rautt spjald á 42. mínútu.

Fjölnismenn nýttu sér liðsmuninn og mörk frá Mána Austmann Hilmarssyni og Óliver Degi Thorlacius í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Kristófer Degi Arnarssyni snemma í síðari hálfleik tryggðu liðinu 0-3 sigur.

Að lokum vann Fylkir 3-0 sigur gegn Þrótti í riðli 2 þar sem Ómar Björn Stefánsson skoraði tvö mörk fyrir heimamenn og Guðmundur Tyrfingsson eitt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×