Innlent

Vilja fá vinnandi fólk til að segja börnum frá vinnu­markaði

Jón Þór Stefánsson skrifar
Guðmundur Fertram, stofnandi Kerecics, hélt tölu ásamt ráðherrunum tveimur, Ásmundi Einari og Áslaugu Örnu.
Guðmundur Fertram, stofnandi Kerecics, hélt tölu ásamt ráðherrunum tveimur, Ásmundi Einari og Áslaugu Örnu. Vísir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynntu í dag verkefnið Stækkaðu framtíðina. Í tilkynningu um verkefnið segir að markmið þess sé að tengja alls konar fólk af vinnumarkaði við skólastofur landsins þar sem það segi nemendum frá starfi sínu og menntun.

„Tilgangur Stækkaðu framtíðina er að opna augu barna og ungmenna fyrir þeim tækifærum sem framtíðin hefur upp á að bjóða og auka þannig áhuga þeirra á námi auk þess að ýta undir að þau sjái tilgang með náminu. Verkefnið miðar að því að öll börn og ungmenni sjái þá möguleika sem þeim standa til boða, óháð bakgrunni eða búsetu, fái tækifæri til að kynnast ólíkum störfum og heyra sögur frá fólki af vinnumarkaðinum og upplifi aukinn áhuga á námi og tækifærum framtíðarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Áslaug Arna og Ásmundur Einar hvöttu í dag fólk á vinnumarkaði til að taka þátt í verkefninu. Fólk getur valið hversu margar heimsóknir það hefur tök á. Í tilkynningunni segir að ein heimsókn geti verið nóg.

Kennarar í grunnskóla og framhaldsskólum landsins munu fá aðgang að gagnagrunni verkefnisins til að finna rétta einstaklinginn til að bjóða í kennslustund hjá sér. En fyrirhugað er að heimsóknir muni hefjast í haust.

Fram kemur að Stækkaðu framtíðina eigi sér erlenda fyrirmynd. Inspiring the Future hóf göngu sína árið 2012 í Bretlandi. Fullyrt er að um 52 þúsund sjálfboðaliða hafi tekið þátt í verkefninu sem hafi líka verið haldið úti í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Sviss.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×