Innlent

Læknar í Kópa­vogi fá ekki að sinna sjúk­lingum fyrir norðan

Bjarki Sigurðsson skrifar
Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar.
Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar.

Tveimur læknum með starfstöðvar í Kópavogi verður ekki leyft að mæta til Akureyrar inn á milli og sinna sjúklingum sínum þar. Forstjóri Heilsuverndar segir að þarna sé verið að mismuna sjúklingum eftir búsetu. 

Læknarnir tveir eru starfsmenn Heilsugæslunnar í Urðarhvarfi og eru með aðalstarfsstöðvar þar. Þeir höfðu ætlað sér að vera einnig með sjúklinga sem búsettir eru á Akureyri og ferðast norður til að sinna þeim og nýta sér aðstöðu Læknastofanna á Akureyri. Fólki er frjálst að velja sér heilsugæslustöð og heimilislækni óháð búsetu en þrátt fyrir það sendu Sjúkratryggingar Íslands bréf sem kemur í veg fyrir að læknarnir geti einnig sinnt sjúklingunum fyrir norðan.

Fjöldi skjólstæðinga á Akureyri

Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar sem rekur Heilsugæsluna í Urðarhvarfi, segir ósamræmi ríkja hjá Sjúkratryggingum.

„Við höfum einfaldlega velt því upp að það sé eðlilegt að við skoðum það að þegar margir skrá sig hjá okkur á Akureyri og vilja hitta sinn heimilislækni að okkur sé heimilt að geta komið til móts við þann skjólstæðingahóp en árétta að megin þjónustan er í Kópavogi,“ segir Teitur.

Mega ekki neita fólki

Hann segir fyrirkomulagið ekki skila auknum kostnaði til sjúklinga sem búa á Akureyri en vilja nýta sér þjónustu læknanna. Hann bendir á að hver sem er geti skráð sig á hvaða heilsugæslu sem er og heilsugæslurnar megi ekki neita fólki um nýskráningar.

„Þá teljum við eðlilegt að reyna að koma til móts við þá á okkar eigin kostnaði og reyna að sinna þeim sem best á þeim stað sem þeir búa. Þetta er val. Við erum að horfa til þess að það val er verið að skerða með þessari nálgun Sjúkratrygginga,“ segir Teitur.

Heilsuvernd fundar með Sjúkratryggingum á fimmtudag um málið.

„Það eiga allir sjúklingar rétt á sömu þjónustu á sama gjaldi landið um kring. Um það snýst málið,“ segir Teitur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×