Fótbolti

Víkingur og KA skildu jöfn, ÍA skoraði sex og Þór lagði HK

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveinn Margeir liggur hér í leik gegn Víkingum en hann skoraði jöfnunarmarkið í dag.
Sveinn Margeir liggur hér í leik gegn Víkingum en hann skoraði jöfnunarmarkið í dag. Vísir/Hulda Margrét

Fjöldinn allur af leikjum fór fram í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag. Íslands- og bikarmeistarar Víkinga gerðu 1-1 jafntefli við KA á meðan ÍA vann Dalvík/Reyni 6-0.

A-deild, riðill 4

Víkingur tók á móti KA í Víkinni í dag. Ari Sigurpálsson kom Víkingum yfir á 18. mínútu og reyndist það eina mark leiksins þangað til í uppbótartíma. Þá fengu gestirnir vítaspyrnu sem Sveinn Margeir Hauksson skoraði úr.

Þessi lið eru í riðli 4 í A-deild Lengjubikarsins. Það sama á við um ÍA og Dalvík/Reyni sem mættust í Akraneshöllinni. Þar unnu heimamenn gríðarlega þægilegan sigur. Ingi Þór Sigurðsson og Hinrik Harðarson skoruðu báðir tvívegis á meðan þeir Steinar Þorsteinsson og Viktor Jónsson skoruðu sitthvort markið.

KA er á toppi riðilsins með 7 stig eftir að hafa spilað fjóra leiki. ÍA kemur þar á eftir með 6 stig og leik til góða á toppliðið. Víkingur er í 4. sæti með fimm stig eftir þrjá leiki en Dalvík/Reynir rekur lestina án stiga.

A-deild, riðill 3

HK tók á móti Þór Akureyri í riðli 3 í A-deild. Þar reyndust gestirnir sterkari þrátt fyrir að spila í Lengjudeildinni á komandi leiktíð á meðan HK leikur í Bestu deildinni. Þór skoraði sitthvort markið í sitthvorum hálfleiknum og vann 2-0 sigur. Ingimar Arnar Kristjánsson með það fyrra og Aron Ingi Magnússon það seinna.

A-deild, riðill 1

Í riðli 1 vann Grindavík 1-0 sigur á Vestra. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson með markið. Sigurliðið í dag er á toppi riðilsins með 9 stig eftir fjóra leiki. Vestri er með eitt stig eftir þrjá leiki.

A-deild, riðill 2

Í riðli 2 vann ÍR 1-0 útisigur á Fylki. Bragi Þór Bjarkason með markið þar. 

Þá vann Þróttur Reykjavík 2-1 sigur á ÍBV. Sverrir Páll Hjaltested kom ÍBV yfir en Tómas Bent Magnússon varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafna þannig metin. Það var svo Eiríkur Þorsteinsson Blöndal sem tryggði Þrótti sigurinn með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

ÍR er í 2. sæti með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. Þróttur er með 6 stig eftir jafn marga leiki á meðan Fylkir er með 3 stig eftir fjóra leiki og ÍBV er án stiga eftir að hafa spilað þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×