Fótbolti

Kane hetjan í dramatískum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kane fagnar.
Kane fagnar. EPA-EFE/RONALD WITTEK

Þýskalandsmeistarar Bayern München unnu nauman 2-1 sigur á RB Leipzig í síðasta leik þýsku úrvalsdeildar karla í dag. Harry Kane reyndist hetja Bæjara en hann skoraði bæði mörkin, það síðara í uppbótartíma.

Það hefur lítið gengið hjá Bayern að undanförnu og nú hefur verið staðfest að Thomas Tuchel muni láta af störfum í sumar. Það þýðir að Kane fær enn og aftur nýjan þjálfara en undanfarna 18 mánuði hefur framherjinn verið með sex mismunandi þjálfara.

Leikur dagsins var gríðarlega mikilvægur ætli Bayern sér að eiga einhvern möguleika að verja titilinn. Staðan var markalaus í hálfleik en Kane breytti því þegar rúmlega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Markið skoraði hann eftir að Jamal Musiala lagði boltann upp á hann innan vítateigs. Dani Olmo jafnaði metin fyrir gestina með skoti sem fór af varnarmanni þegar tuttugu mínútur lifðu leiks.

Það stefndi allt í jafntefli en þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma þá tókst varamanninum Eric Maxim Choupo-Moting að finna Kane og honum brást ekki bogalistin, staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur leiksins.

Bayern er nú með 53 stig, átta stigum minna en topplið Bayer Leverkusen þegar 11 leikir eru til loka tímabils. RB Leipzig er í 5. sæti með 40 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×