Enski boltinn

Búið að bjóða Moyes samning en hann er ó­á­kveðinn um fram­tíðina

Ágúst Orri Arnarson skrifar
David Moyes sagðist ekki finna fyrir hita undir sæti sínu.
David Moyes sagðist ekki finna fyrir hita undir sæti sínu. Vince Mignott/MB Media/Getty Images

West Ham hefur boðið David Moyes framlengdan samning hjá félaginu en sjálfur vill hann bíða með allar ákvarðanir til enda tímabilsins.

Moyes rennur út á samningi eftir tímabilið og vangaveltur hafa verið um framtíð hans. Vitað er að óánægja ríkir hjá einhverjum stuðningsmönnum liðsins, en þeir sáust með skilti sem á stóð "Moyes Out" um síðustu helgi. 

West Ham tapaði þar 2-0 gegn Nottingham Forest, þetta var áttundi leikur liðsins í röð án sigurs. Síðasti sigur kom í lok síðasta árs gegn Arsenal. Þrátt fyrir slakt gengi og áköll stuðningsmanna um brottrekstur sagðist Moyes sjálfur ráða því hvort hann verði áfram eða ekki. 

„Ég hef átt góð samtöl við eigendurna, það bíður mín samningur og ég ákveð sjálfur hvort ég framlengi eða ekki. Ég mun bíða með þá ákvörðun til enda tímabilsins.“

West Ham hefur vissulega verið án lykilmanna líkt og Lucas Paqueta sem hefur verið frá síðan í byrjun janúar. Nú horfir til betri tíma því bæði hann og Michail Antonio hafa snúið aftur til æfinga. 

Næsti leikur liðsins er gegn Brentford á mánudaginn kemur klukkan 20:00. West Ham er sem stendur í 9. sæti deildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×