Erlent

Að minnsta kosti fjórir látnir í elds­voðanum í Valencia

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eldurinn breiddist hratt út og ekkert virðist eftir nema burðarvirkið.
Eldurinn breiddist hratt út og ekkert virðist eftir nema burðarvirkið. Getty/Manuel Queimadelos Alonso

Að minnsta kosti fjórir eru látnir og fjórtán slasaðir eftir að eldur braust út í Valencia á Spáni í gær og gleypti stórt og mikið fjölbýlishús. Nítján er enn saknað.

Meðal slösuðu er sjö ára barn en flestir urðu fyrir skaða þegar þeir önduðu að sér reyk.

Alls voru 22 teymi slökkviliðsmanna kölluð út til að berjast við eldinn, sem braust út rétt fyrir kvöldmat í gær í Campanar-hverfinu í Valencia. Eldurinn náði að læsa klónum í nærliggjandi byggingar og er mikill vindur sagður hafa hamlað slökkvistarfi.

Eldurinn breiddist hratt út að sögn vitna og viðbragðsaðilar og myndir sýna bygginguna standa í ljósum logum og mikinn og dökkan reyk stíga til himins. Ríkissjónvarpsstöðin TVE sagði 130 íbúðir í byggingunni, sem eldurinn hefði fljótt gert að „beinagrind“.

Varaformaður samtaka verkfræðinga í Valencia segir hinn hraða bruna mega rekja til klæðningar hússins, sem hafi verið úr afar eldfimu pólýúretani. Guardian líkir eldsvoðanum við þann sem braust út í Grenfell Tower í Lundúnum áirð 2017, þar sem 72 lét lífið. Þar kom klæðning byggingarinnar einnig við sögu.

Íbúi í nágrenninu sagðist hafa litið út um gluggann og fylgst með því hvernig eldurinn gleypti húsið í sig eins og það væri gert úr korki. Vindurinn hefði augljóslega hjálpað logunum við að teygja úr sér.

Á myndskeiðum má sjá föður og dóttur bjargað af svölum.

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, sagði eldsvoðann mikið áfall og að hann hefði haft samband við borgarstjóra Valencia og yfirvöld til að bjóða þeim alla þá hjálp sem þá vantaði. 


Tengdar fréttir

Eldur gleypir í sig stóra blokk í Valencia

Fjórtán hæða fjölbýlishús er í ljósum logum í Campanarhverfi Valenciaborgar á Spáni. Eldurinn hefur náð til flestra hæða í húsinu og þykkur reykmökkur sést um alla borgina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×