Innlent

Vilja rann­saka um­merki Tyrkjaránsins í erfða­mengi Ís­lendinga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Vísir/Vilhelm

Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja til að Íslenskri erfðagreiningu verði falið að gera rannsókn á ummerkjum Tyrkjaránsins í erfðamengi Íslendinga á Íslandi og finni blandaða afkomendur Íslendinganna í Alsír.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í þingsályktunartillögu þeirra sem lögð var fram á Alþingi í gær. Þingmennirnir sem um ræðir eru þau Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Diljá Mist Einarsdóttir, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason. 

Í tillögu þeirra leggja þingmennirnir til að forsætisráðherra verði falið að skipa nefnd til að undirbúa viðburð til minningar um Tyrkjaránið í tilefni þess að árið 2027 verði fjögur hundruð ár liðin frá Tyrkjaráninu 1627. Það er þegar ræningjaskip komu að Íslandi frá Norður-Afríku. 

Ránsmennirnir voru frá Marokkó og Alsír og komu að í Grindavík, á Austfjörðum og loks í Vestmannaeyjum. Hátt í fjögur hundruð Íslendingar voru numdir á brott sem þrælar til Marokkó og Alsír og hátt í fimmtíu drepnir eða limlestir.

Minnisvarði í Vestmannaeyjum

Segja þingmennirnir í tillögu sinni að Íslensk erfðagreining hafi reynslu af því að leita að litningabútum úr erfðamengi framandi einstaklinga sem blönduðust íslenskri þjóð á öldum áður. Sagan um Hans Jónatan sé líklega best þekkta dæmið.

Segja þingmennirnir að málið hafi verið rætt við Íslenska erfðagreiningu og að fyrirtækið hafi tekið vel í tillöguna. Lagt er til að niðurstöður rannsóknarinnar verði kynntar í Vestmannaeyjum þann 16. júlí árið 2027.

Ennfremur leggja þingmennirnir til að í Vestmannaeyjum, þar sem blóðtaka ránsins hafi verið langmest, verði reistur minnisvarði um viðburðinn, sem þingmennirnir segja að hafi verið heimssögulegur. Hann verði afhjúpaður sama dag, þann 16. júlí að viðstöddum fulltrúum þjóðþinga þeirra landa sem helst komu við sögu, Danmörk, Holland, Alsír, Marokkó auk fleiri landa.

Þingmennirnir leggja til að nefndin efni til hönnunarsamkeppni um minnisvarðann og annist síðan kaup á sigurverkinu. Nefndin stofni auk þess fræðslusjóð og skipi stjórn hans. Sjóðurinn starfi tímabundið og styrki fræðsluverkefni um Tyrkjaránið í hlutaðeigandi sveitarfélögum á Austfjörðum, í Vestmannaeyjum og í Grindavík á árinu 2027.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×