Enski boltinn

Núnez bara einu skoti frá stöngin-út metinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darwin Núñez fagnar marki sínu fyrir Liverpool á móti Brentford um síðustu helgi.
Darwin Núñez fagnar marki sínu fyrir Liverpool á móti Brentford um síðustu helgi. Getty/ Gaspafotos

Liverpool framherjinn Darwin Núnez skoraði frábært mark fyrir Liverpool um síðustu helgi og verður aftur í sviðsljósinu í kvöld. Það hefur þó ekki alltaf verið raunin að hann nýti dauðafærin sín.

Ekki nóg með að Núnez hafi ekki hitt markið úr mörgum af þessum dauðafærum þá nálgast hann nú óðfluga metið yfir flest skot í stöngina og út. Það fylgir sögunni að farið var fyrst að taka þetta saman á 2009-10 tímabilinu.

Núnez hefur alls átt níu skot í markstangirnar eða markslána á þessu tímabili og er nú aðeins einu skoti á eftir methafanum. Metið á Hollendingurinn Robin van Persie.

Van Persie átti tíu skot í stöng eða slá á síðasta tímabili sínu með Arsenal veturinn 2011 til 2012. Hann varð engu að síður markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar með 30 mörk í 38 leikjum.

Van Persie varð líka markakóngur árið eftir en þá sem leikmaður Manchester United. Þá átti hann „bara“ sjö stangarskot sem kemur honum samt sem áður inn á topp tíu á stöngin-út listanum frá því að farið var að taka þetta saman á 2009-10 tímabilinu.

Núnez er þegar búinn að jafna metið hjá Liverpool en landi hans Luis Suárez átti líka níu skot í stöng eða slá á 2013-14 tímabilinu þegar Suárez var markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar með 31 mark í 33 leikjum. Það var hans síðasta tímabil á Anfield en hann gekk til liðs við Barcelona um sumarið.

Darwin Núnez hefur skorað í tveimur deildarleikjum í röð og alls fimm mörk í síðustu sjö deildarleikjum. Það hefur því gengið mun betur hjá honum fyrir framan markið í undanförnum leikjum en Úrúgvæinn skoraði ekki í átta deildarleikjum í röð frá byrjun nóvember þar til eftir jól.

Liverpool mætir Luton á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og þar er von á marki og kannski stangarskoti frá kappanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×