Enski boltinn

„Ég er þjálfari, lífið mitt er betra en þitt“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Pep Guardiola hefur náð mögnuðum árangri í starfi og þénað vel. Erfitt er að mótmæla ummælum hans um betra líf.
Pep Guardiola hefur náð mögnuðum árangri í starfi og þénað vel. Erfitt er að mótmæla ummælum hans um betra líf. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Pep Guardiola spjallaði við blaðamenn eftir 1-0 sigur gegn Brentford í gærkvöldi. Þar fór hann yfir leikinn, stöðuna á lykilmönnum liðsins og grínaðist með að líf sitt væri betra en blaðamanns. 

Erling Haaland skoraði eina mark leiksins. Hann hefur ekki verið upp á sitt allra besta undanfarið en Pep varaði blaðamenn við því að gagnrýna hann of mikið.

„Með svona eðal markaskorara er best að gagnrýna ekki of mikið – því hann mun þagga niður í þér. Ekki spurning, ef ég ætti að velja einn mann til að setja fyrir framan markið, þá væri það hann. Hann hefur verið meiddur og er ekki upp á sitt besta. Síðasta vika var honum erfið því amma hans féll frá.“

Guardiola hóf fundinn á því að segjast aldrei vilja verða blaðamaður, eðlilega spurði blaðamaður hann þá hvers vegna ekki. 

„Ég er þjálfari, lífið mitt er betra en þitt“ sagði Guardiola léttur í bragði og uppskar hlátraköll. 

Þá var Pep næst spurður út í Kevin De Bruyne sem tók ekki þátt í leiknum. 

„Við gátum ekki notað hann vegna eymsla í lærvöðvanum, það er í fínu lagi með hann. Þetta eru bara varúðarráðstafanir, eftir fimm mánaða meiðsli viljum við ekki taka neinar áhættur.“

Viðtalið allt við Pep Guardiola má sjá í spilaranum hér að ofan. Ummælin um betra líf má finna eftir tvær mínútur og fimmtán sekúndur.


Tengdar fréttir

Þolinmæðisverk hjá meisturunum

Englandsmeistarar Manchester City unnu mikilvægan 1-0 sigur er liðið tók á móti Brentford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×