Fótbolti

Vann Ís­land tvisvar á síðasta ári og á nú að bjarga Napoli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Francesco Calzona fagnar hér sigri á íslenska landsliðinu og um leið sæti á EM í Þýskalandi.
Francesco Calzona fagnar hér sigri á íslenska landsliðinu og um leið sæti á EM í Þýskalandi. Getty/Christian Hofer

Óhætt er að segja að þjálfarastóllinn hjá Napoli sé sá heitasti í dag. Ítölsku meistararnir ráku í gær sinn annan þjálfara á þessu tímabili og það aðeins tveimur dögum fyrir leik liðsins á móti Barcelona í Meistaradeildinni.

Napoli rak í gær Walter Mazzarri en hann hafði tekið við liðinu í nóvember síðastliðnum eftir að Rudi Garcia var rekinn. Garcia var heldur ekki lengi í starfinu því hann tók við um sumarið eftir að sá sem gerði liðið að ítölskum meisturum í fyrravor, Luciano Spalletti, yfirgaf félagið.

Napoli vann í fyrravetur sinn fyrsta meistaratitil síðan að Diego Maradona var leikmaður liðsins árið 1990. Liðið hefur ekki alveg náð að fylgja því eftir og er bara í níunda sæti í deildinni eins og stendur.

Undir stjórn Walter Mazzarri vann liðið aðeins sex af sautján leikjum sínum og sá síðasti var 1-1 jafnteflisleikur á heimavelli á móti Alberti Guðmundssyni og félögum um helgina.Aurelio De Laurentiis, eigandi Napoli, var þá búinn að sjá nóg enda liðið aðeins búið að fagna einu sinni sigri í síðustu fimm leikjum.

De Laurentiis var fljótur að finna eftirmann og það er Ítalinn Francesco Calzona. Calzona er reyndar í öðru starfi því hann er þjálfar slóvakíska landsliðsins.

Slóvakar eru að fara að taka þátt í Evrópumótinu í Þýskalandi í sumar en liðið varð í öðru sæti í riðli Íslands, á eftir Portúgal sem vann alla tíu leiki sína. Slóvakar skoruðu sautján mörk eða jafnmörg og íslenska landsliðið en þeir fengu tólf fleiri stig.

Slóvakíska liðið vann báða leikina á móti Íslandi, fyrst 2-1 á Laugardalsvellinum í júní í fyrra og svo 4-2 sigur í Slóvakíu í nóvember en með þeim sigri tryggði liðið sér endanlega sæti á EM.

Calzona er 55 ára gamall en hann gerði stuttan samning um að stýra Napoli liðinu út tímabilið. Calzona þekkir vel til hjá Napoli því hann var í starfsliði Spalletti áður en hann tók við þjálfun slóvakíska landsliðsins.

Fyrsti leikurinn undir hans stjórn verður á móti Barcelona annað kvöld sem er fyrri leikur liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Svo taka við deildarleikir við Cagliari, Sassuolo, Juventus og Torino áður en kemur að seinni leiknum á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×