Fótbolti

Ráku Gennaro Gattuso

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gennaro Gattuso er atvinnulaus á ný, rekinn frá franska félaginu Marseille, rúmu ári eftir að hann var rekinn frá Valencia.
Gennaro Gattuso er atvinnulaus á ný, rekinn frá franska félaginu Marseille, rúmu ári eftir að hann var rekinn frá Valencia. Getty/Stuart Franklin

Franska fótboltafélagið Marseille hefur rekið þjálfara sinn Gennaro Gattuso.

Gattuso varð á sínum tíma heimsmeistari með ítalska landsliðinu og ítalskur meistari með AC Milan en hann hefur ekki gert góða hluti sem þjálfari franska félagsins.

Gattuso var aðeins búinn að þjálfa liðið í fimm mánuði en hann þurfti að taka pokann sinn eftir 1-0 tap á móti tíu mönnum hjá Brest. Það er líka rúmt ár síðan að hann missti starfið sitt hjá spænska félaginu Valencia.

Tapið um helgina þýðir að Marseille situr í níunda sæti deildarinnar með bara sjö sigra í 22 leikjum. Liðið er með 30 stig en liðið sem situr í þriðja og síðasta Meistaradeildarsætinu er með 39 stig.

Gattuso var ekki sáttur eftir leikinn og sagði að liðið hefði náð botninum með þessu tapi. Þetta var sjötti deildarleikur liðsins í röð án sigurs.

„Þegar þú ert kominn á botninn þá verður þú að taka ábyrgð á stöðunni. Þetta er mín ábyrgð. Það er ekkert annað hægt að segja,“ sagði Gattuso.

„Stigataflan? Sannleikurinn er sá að við þurfum nú að fara að horfa niður fyrir okkur. Við getum ekki lengur talað um Evrópu. Við verðum að ná í nógu mörg stig til að tryggja okkur í deildinni,“ sagði Gattuso.

Jean-Louis Gasset, fyrrum þjálfari landsliðs Fílabeinsstrandarinnar, sem var rekinn í miðri Afríkukeppninni, er orðaður við starfið hjá Marseille. Fílabeinsströndin fór síðan alla leið og vann keppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×