Innlent

Happ­drætti Há­skóla Ís­lands fjár­festir í 30 nýjum spila­kössum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bryndís Hrafnkelsdóttir er forstjóri HHÍ.
Bryndís Hrafnkelsdóttir er forstjóri HHÍ.

Happdrætti Háskóla Íslands hefur, í gegnum Ríkiskaup, óskað eftir tilboðum í 30 nýjar happdrættisvélar. Um er að ræða endurnýjun véla og áætlað að kaupa fleiri vélar síðar á þessu ári.

Frá þessu greinir Morgunblaðið og hefur eftir Bryndísi Hrafnkelsdóttur, forstjóra HHÍ.

„Sam­hliða kaup­un­um á happ­drættis­vél­un­um er Happ­drættið að end­ur­nýja tölvu­kerfi [e. plat­form] en það er veiga­mik­ill liður í inn­leiðingu ra­f­rænna spila­korta sem eru tengd farsím­um. Spila­kort­in eru að nor­rænni fyr­ir­mynd en mark­miðið með þeim er að stuðla að heil­brigðari leikja­markaði og ábyrgri spil­un, sporna við spila­vanda og verj­ast pen­ingaþvætti,“ segir Bryndís.

„Þegar kortið verður komið í notk­un geta viðskipta­vin­ir meðal ann­ars tak­markað þátt­töku sína í happ­drættis­vél­um eða úti­lokað sig frá spil­un, tíma­bundið eða var­an­lega. Ra­f­rænu spila­kort­in eru raun­hæf og ár­ang­urs­rík leið til að stemma stigu við spila­vanda og hafa gefið góða raun í lönd­un­um í kring­um okk­ur.“

Bryndís segir HHÍ hafa lagt töluverða fjárfestingu í innleiðingu spilakortanna, til að stuðla að „heilbrigðari leikjamarkaði og ábyrgri spilun“. Þau verða hluti af „Happinu“ nýju appi HHÍ.

Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) og fleiri hafa gagnrýnt Háskóla Íslands harðlega fyrir að reka spilakassa en Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, hefur sagt reksturinn afar mikilvægan og forsendu uppbyggingu innviða og viðhalds þeirra.

„Þetta er stórmál fyrir háskólann,” sagði hann í samtali við Vísi árið 2021, þegar starfsemin var kærð til lögreglu.


Tengdar fréttir

Skora á rekstrar­aðila að loka spila­kössum yfir jól og ára­mót

Samtök áhugafólks um spilafíkn skora á rekstraraðila spilakassa að loka spilakössum sínum dagana yfir jólahátíðina og áramót. Samtökin benda á að jól og áramót eru hátíð kærleika, friðar og samveru með fjölskyldu, börnum og ástvinum og að með þessu móti geti allir sameinast um að láta spilakassana ekki spilla hátíðunum.

Segir spila­fíkla fjár­magna kaup HÍ á Hótel Sögu

„Spilafíklar kaupa Bændahöllina“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, í skoðanapistli sem birtist í helgarblaði Morgunblaðsins. Hann kallar eftir því að Háskóli Íslands og aðrir hagsmunaaðilar hætti rekstri spilakassa. 

Lokun spilakassa muni ekki leiða til skólagjalda

Lokun spilakassa myndi ekki hafa áhrif á skólagjöld, að sögn rektors Háskóla Íslands. Formaður Happdrættis Háskóla Íslands hefur hins vegar lýst því yfir að lokun spilakassa myndi leiða af sér umfangsmiklar hækkanir á skólagjöldum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×