Fótbolti

Kristian lék allan leikinn í grát­legu jafn­tefli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristian Nökkvi með boltann í leiknum gegn Nijmegen í dag.
Kristian Nökkvi með boltann í leiknum gegn Nijmegen í dag. Vísir/Getty

Kristian Nökkvi Hlynsson og samherjar hans í Ajax gerðu í dag 2-2 jafntefli gegn Nijmegen í hollensku deildinni í dag.

Kristian var í byrjunarliði Ajax í dag sem hefur í smá brasi í síðustu leikjum. Liðið hafði ekki unnið síðustu tvo deildarleiki sína en vann síðustu þrjá leiki þar á undan. Í vikunni gerði Ajax síðan jafntefli við Bodö/Glimt í Sambandsdeildinni eftir að hafa misst niður tveggja marka forskot á lokamínútunum.

Brian Brobbey kom heimaliði Ajax yfir á 7. mínútu í dag og staðan í hálfleik var 1-0. Sjálfsmark frá Jorrel Hato á 61. mínútu gerði það að verkum að Nijmegen jafnaði metin en Carlos Forbs kom Ajax yfir á nýjan leik á 79. mínútu og lengi vel leit það mark út fyrir að verða sigurmarkið.

Nijmegen tókst hins vegar að jafna metin á fimmtu mínútu uppbótartíma og 2-2 jafntefli staðreynd.  Markið var skoðað í lengri tíma í VAR sem komst loks að þeirri niðurstöðu að markið skyldi standa. Ajax er því án sigurs í síðustu þremur deildarleikjum og í síðustu fjórum leikjum í öllum keppnum.

Kristian Nökkvi Hlynsson lék allan leikinn fyrir Ajax og nældi sér í gult spjald á 87. mínútu leiksins. Ajax er í 5. sæti hollensku deildarinnar en PSV er langefst og með þrettán stiga forskot á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×