Innlent

Hefur rætt við um­hverfis­ráð­herra um um­deilda raf­rettu­reglu­gerð

Bjarki Sigurðsson skrifar
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Ráðherra hefur fengið athugasemdir um slæm umhverfisáhrif sem gætu fylgt nýrri breytingu á lögum um rafrettur. Hann kannast ekki við að gengið sé fram hjá samráði líkt og þeir sem selja rafrettur hafa kvartað yfir. 

Fyrir skömmu síðan var rætt við Ernu Margréti Oddsdóttur eiganda rafrettuverslunar í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar lýsti hún óánægju sinni með breytingu á reglugerð um innihaldsefni nikótínvara en með innleiðingu hennar er það takmarkað gífurlega hversu mikill nikótínvökvi má vera í einni rafrettu eða áfyllingarflösku.

„Þetta leggst alls ekki vel í okkur því þetta er heftandi bæði fyrir neytandann og söluaðilann. Þetta er meiri mengun fyrir umhverfið, dýrara fyrir neytandann og fyrir okkur öll þannig þetta er ekki gott,“ sagði Erna Margrét.

Hún kvartaði einnig undan því að samráð við verslanirnar hafi verið lítið sem ekkert.

Samráð í flestöllu

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, lagði fram reglugerðarbreytinguna en hann segir samráð vera í flestöllum málum ráðuneytisins.

„Áformin fara í samráð og þegar drög af frumvarpi liggja fyrir fara þau í samráð í sömu málum. Svo fara öll frumvörp fyrir Alþingi og þar fara þau í samráð í gegnum vinnslu nefnda. Oft eru starfshópar á bak við það að vinna frumvarp sem kalla hagaðila að borðinu í frekara samtal,“ segir Willum. 

Mögulega umhverfismál frekar

Hann segir það þurfi að skoða málið út frá umhverfissjónarmiðum en með breytingunni fjölgar einnota rafrettum gríðarlega þar sem minni vökvi má vera í hverri græju.

„Ég  hef fengið svona athugasemdir varðandi þetta inn á mitt borð og hef rætt það við umhverfisráðherra og inni í ráðuneytinu. Þannig ég reikna með því að við reynum að taka einhverja skynsamlega afstöðu í þessu máli,“ segir Willum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×