Erlent

Rússar þrói kjarna­vopn í geimnum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vladimír Pútín, Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín, Rússlandsforseti. Vyacheslav Prokofyev/AP

Bandarísk yfirvöld óttast að Rússar muni vilja koma kjarnavopnum umhverfis sporbaug. Ætlunin yrði að beita þeim gegn gervihnöttum en tæknin er nú í þróun í Rússlandi.

Þetta er fullyrt í frétt bandaríska miðilsins ABC. Fyrr í dag hafði Mike Turner formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hvatt Joe Biden Bandaríkjaforseta til að opinbera leynileg gögn um ónefnda ógn gegn Bandaríkjunum.

Ekki kom fram um hvaða ógn var að ræða en nú fullyrðir ABC sjónvarpsstöðin að þar sé á ferðinni fyrirætlanir Rússa um kjarnavopn í geimnum. Stöðin hefur eftir heimildarmönnum að um sé að ræða grafalvarlegt mál.

Stöðin hefur eftir bandarískum þingmönnum að tilgangurinn með því að vekja athygli á þessu sé ekki að vekja upp ugg í brjósti bandarísku þjóðarinnar. Hið mikilvæga sé að innan bandaríska stjórnkerfisins sé unnið saman að því að greina málið. 

Vildi Mike Turner að allri leynd yfir skjölunum yrði aflétt svo hægt væri að ræða hina meintu ógn opinberlega. Að sama skapi gæfi það bandamönnum Bandaríkjanna færi á að melta þessar upplýsingar.

Fram kemur í frétt New York Times um málið að tæknin sé enn ekki í höndum Rússa. Rússnesk stjórnvöld séu hinsvegar í óðaönn við að þróa hana. Þar af leiðir sé ekki um raunverulega ógn gegn Bandaríkjunum, Úkraínu og öðrum bandalagsþjóðum að ræða, að svo stöddu.

Miðillinn hefur eftir heimildarmönnum innan Hvíta hússins að uppátæki Turner hafi ekki vakið lukku. Þeir óttist að starfsemi leyniþjónustunnar og upplýsingaöflun frá Rússlandi kunni að verða fyrir skaða vegna málsins. Fram kemur að upplýsingana hafi verið aflað á síðustu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×