Fótbolti

Alexandra upp í annað sæti á Ítalíu

Sindri Sverrisson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir er í einu besta liði Ítalíu.
Alexandra Jóhannsdóttir er í einu besta liði Ítalíu. Gabriele Maltinti/Getty Images

Landsliðskonan Alexandra Jóhannsdóttir er komin með liði Fiorentina upp í 2. sæti ítölsku A-deildarinnar í fótbolta, í bili að minnsta kosti.

Fiorentina vann Como 1-0 í dag. Alexandra var í byrjunarliði Fiorentina en var tekin af velli á 65. mínútu. Skömmu síðar kom sigurmark liðsins, frá hinni spænsku Vero.

Þar með er Fiorentina með 39 stig í 2. sæti, tveimur stigum fyrir ofan Juventus sem á leik til góða við Inter í kvöld en Inter er í 4. sæti með 26 stig. Roma er langefst, nú níu stigum á undan Fiorentina.

Guðný Árnadóttir var hins vegar ekki með AC Milan sem hefur valdið vonbrigðum í vetur en vann 3-1 sigur á útivelli gegn Sampdoria.

Milan náði þar með að jafna Como og Sampdoria að stigum og er með 18 stig í 6.-8. sæti, nú þegar ein umferð er fram að landsleikjahléinu þar sem Ísland mætir Serbíu í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar.

Sú umferð, sem spiluð er um helgina, er jafnframt átjánda og síðasta umferðin í ítölsku deildinni áður en henni er skipt í tvennt. Nú þegar er ljóst að Milan, Como, Sampdoria, Pomigliano og Napoli verða í neðri hlutanum, en Roma, Fiorentina, Juventus, Inter og Sassuolo í efri hlutanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×