Fótbolti

Íslandsvini ætlað að bjarga liði úr krísu

Sindri Sverrisson skrifar
Bo Henriksen hefur síðustu misseri stýrt FC Zürich í Sviss.
Bo Henriksen hefur síðustu misseri stýrt FC Zürich í Sviss. Getty/Ryan Pierse

Danski þjálfarinn Bo Henriksen, sem er íslenskum fótboltaáhugamönnum að góðu kunnur, hefur verið ráðinn til að taka við þýska efstudeildarliðinu Mainz.

Henriksen spilaði á Íslandi í tvö ár, með Val, Fram og ÍBV, árin 2005 og 2006. Eftir það hóf hann þjálfaraferil sinn og hefur stýrt liðum Brönshöj, Horsens og Midtjylland í Danmörku, og svo FC Zürich í Sviss síðustu tvö ár.

Hann skilur nú óvænt við Zürich sem er í 3. sæti svissnesku úrvalsdeildarinnar, og komið í 8-liða úrslit svissneska bikarsins, til að taka við Mainz.

Samningur Henriksen við Mainz er til ársins 2026. Hann er þriðji þjálfari liðsins á þessari leiktíð eftir að Jan Siewert og Daninn Bo Svensson voru reknir.

Mainz hefur ekki unnið leik síðan í byrjun nóvember og er aðeins með tólf stig eftir 21 umferð, í næstneðsta sæti þýsku deildarinnar. Fjögur stig eru upp í Köln, sem situr í fallumspilssæti, og níu stig upp í næsta örugga sæti.

Mainz hefur nú spilað ellefu leiki í röð án sigurs en næsti leikur liðsins er gegn Augsburg á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×