Fótbolti

Ísak neyðist til að fara í að­gerð

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson hefru verið heldur óheppinn með meiðsli á tíma sínum hjá Rosenborg.
Ísak Snær Þorvaldsson hefru verið heldur óheppinn með meiðsli á tíma sínum hjá Rosenborg. Getty/Paul Devlin

Knattspyrnumaðurinn Ísak Snær Þorvaldsson missir af byrjun tímabilsins í norsku úrvalsdeildinni, með liði sínu Rosenborg, vegna meiðsla.

Ísak þarf að fara í aðgerð á mánudaginn vegna meiðsla í nára, og tekur því ekki þátt í undirbúningi Rosenborgar á Marbella á Spáni, fyrir tímabilið. Fyrsti leikur Rosenborgar í norsku úrvalsdeildinni er gegn Sandefjord 1. apríl.

„Í samráði við sjúkrateymið þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að Ísak þurfi að fara í aðgerð vegna náravandamála sem hafa angrað hann undanfarið,“ sagði Alfred Johansson, þjálfari Rosenborgar, við heimasíðu félagsins.

„Því miður verður hann ekki til taks á næstunni og missir af byrjun leiktíðarinnar,“ sagði Johansson.

Ísak hefur ekkert spilað í leikjum vetrarins en hann skoraði fimm mörk í norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Meiðsli trufluðu hann einnig í aðdraganda þeirrar leiktíðar, og á leiktíðinni, sem var hans fyrsta eftir komuna frá Breiðabliki. Hann kom þó við sögu í 18 af 30 deildarleikjum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×