Fótbolti

Skiptu sau­tján ára mark­verði út af eftir tuttugu sekúndur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skiptingin umdeilda.
Skiptingin umdeilda.

Lið í slóvensku úrvalsdeildinni í fótbolta skipti sautján ára markverði sínum af velli eftir aðeins tuttugu sekúndur í leik um helgina.

Rogaska hefur átt erfitt uppdráttar í slóvensku deildinni í vetur og ekki varð útlitið bjartara þegar aðalmarkvörður liðsins, Rok Vodisek, hrökk úr skaftinu.

Í hans byrjaði hinn sautján Zan Lorber í marki Rogaska í leik gegn Olimpija Ljubljana á laugardaginn.

Lorber var hins vegar tekinn út af eftir einungis tuttugu sekúndur og í hans stað kom Adjin Mulalic.

Oskar Drobne, þjálfari Rogaska, kom sér þar með framhjá reglu sem slóvenska knattspyrnusambandið setti á í fyrra. Samkvæmt henni þarf hvert lið að byrja inn á með einn leikmann inn á sem getur spilað fyrir U-21 árs landslið Slóveníu.

Engar reglur eru hins vegar um hversu lengi leikmaðurinn þarf að spila og það nýtti Drobne sér. Um leið og boltinn fór úr leik kippti Lorber út af og setti Mulalic inn á.

Mulalic var ekki búinn að vera lengi inn á þegar hann fékk á sig mark. Ahmet Muhamedbegovic skoraði þá sjálfsmark. Olimpija Ljubljana komst svo í 2-0 en leikmenn Rogaska gáfust ekki upp, skoruðu tvö mörk í seinni hálfleik og náðu í stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×