Fótbolti

Stórt tap hjá Ís­lendinga­liðinu | Hákon fékk tæki­færi gegn PSG

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson í leik með Lille
Hákon Arnar Haraldsson í leik með Lille Vísir/Getty

Íslendingaliðið Eupen í Belgíu mátti sætta sig við stórt tap þegar liðið mætti Club Brugge í kvöld. Þá kom Hákon Arnar Haraldsson inn af bekknum hjá Lille gegn stórliði PSG.

Eupen hafði tapað tveimur leikjum í röð í belgísku deildinni og var komið í næst neðsta sæti deildarinnar fyrir leikinn í kvöld. Andstæðingarnir í Club Brugge voru hins vegar í þriðja sæti og því búist við erfiðum leik fyrir Eupen.

Guðlaugur Victor Pálsson var á sínum stað í vörn Eupen sem lenti 2-0 undir í fyrri hálfleiknum. Staðan var 2-0 þar til langt var liðið á síðari hálfleikinn en heimamenn bættu tveimur mörkum við á þriggja mínútna kafla seint í leiknum. Lokatölur 4-0 og þriðja tap Eupen í röð því staðreynd.

Alfreð Finnbogason kom inn sem varamaður á 81. mínútu þegar staðan var 4-0. Kortrijk lið Freys Alexanderssonar er þremur stigum á eftir Eupen í neðsta sætinu en gæti jafnað liðið að stigum með sigri gegn Union Saint Gilloiose á morgun.

Í Frakklandi byrjaði Hákon Arnar Haraldsson á bekknum hjá Lille sem mætti stórliði PSG á útivelli. Lille komst yfir strax á 6. mínútu með marki frá Yusuf Yacizi en PSG var ekki lengi að snúa við taflinu. Gonzalo Ramos skoraði á 10. mínútu og sjálfsmark frá Alexsandro kom PSG í 2-1 á 17. mínútu.

Staðan í hálfleik var 2-1 og Randal Kolo Muani bætti þriðja markinu við á 80. mínútu og innsiglaði sigurinn. Hákon Arnar kom inn af bekknum mínútu síðar og lék síðustu mínútur leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×