Fótbolti

Gunn­hildur Yrsa nýr styrktar­þjálfari lands­liðsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var ekki lengi í burtu frá íslenska landsliðinu.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var ekki lengi í burtu frá íslenska landsliðinu. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Landsliðskonan fyrrverandi, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, er nýr styrktarþjálfari A-landsliðs kvenna í knattspyrnu. Frá þessu var greint á blaðamannafundi Knattspyrnusambands Íslands í dag.

Dúna, Guðrún Þórbjörg Sturlaugsdóttir, hefur starfað sem styrktarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins undanfarin misseri en nú verður breyting þar.

Gunnhildur Yrsa er öllum hnútum kunnug hjá landsliðinu en hún spilaði alls 102 A-landsleiki, og skoraði 14 mörk, áður en landsliðsskórnir fóru upp í hillu.

Gunnhildur verður hluti af teymi A-landsliðs kvenna sem mætir Serbíu í umspili um hvort liðið heldur sér í A-deild Þjóðadeildarinnar.

Fyrri leikurinn fer fram í Serbíu föstudaginn 23. febrúar og sá seinni á Kópavogsvelli fjórum dögum síðar. Sigurvegarinn í einvíginu heldur sæti sínu í A-deild Þjóðadeildarinnar en tapliðið fellur í B-deildina.

Viðtal við Þorstein Halldórsson, þjálfara landsliðsins, birtist á Vísi síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×