Erlent

Ræddu nauð­syn þess að draga úr spennu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blinken er á ferð um Mið-Austurlönd og mun meðal annars funda með ráðamönnum í Egyptalandi, Katar og Ísrael.
Blinken er á ferð um Mið-Austurlönd og mun meðal annars funda með ráðamönnum í Egyptalandi, Katar og Ísrael. AP/Mark Schiefelbein

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú á leið til Kaíró til að funda með Abdel Fattah El-Sisi, forseta Egyptalands. Blinken átti fund með Mohammed bin Salman, krónprins Sádi Arabíu í gær.

Á fundinum eru mennirnir sagðir hafa rætt samvinnu ríkja á svæðinu til að stuðla að enda átakanna á Gasa. Þá ræddu þeir einnig bráða nauðsyn þess að draga úr spennu á svæðinu, sem hefur meðal annars brotist út í skæruárásum á herlið Bandaríkjanna og bandamenn.

Bandarísk hermálayfirvöld staðfestu í gær að þau hefðu gert árásir á það sem Reuters hefur kallað „drónabáta fulla af sprengiefnum“, á vegum Húta í Jemen. Á sama tíma greindu Bretar frá því að skotið hefði verið á breskt skip á Rauðahafi. Smávægilegar skemmdir hefðu orðið á skipinu.

Jake Sullivan, ráðgjafi Joe Biden Bandaríkjaforseta í þjóðaröryggismálum, sagði í gær að í væntanlegri heimsókn hans til Ísrael myndi Blinken freista þess að þrýsta á þarlend stjórnvöld að hleypa aukinni neyðaraðstoð inn á Gasa.

Staðan á svæðinu fer enn versnandi og miklar áhyggjur eru uppi vegna aukinna árása Ísraelsmanna á Rafah, þar sem hundruð þúsunda dvelja nú eftir að hafa yfirgefið heimili sín. Fólk streymir enn að, til að mynda frá Khan Younis sem enn sætir árásum, en frá Rafah kemst fólk hvergi vegna lokaðra landamæra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×