Fótbolti

Gott gengi Róm­verja ætlar engan endi að taka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rómverjum gengur vel um þessar mundir.
Rómverjum gengur vel um þessar mundir. EPA-EFE/ANGELO CARCONI

Roma vann Cagliari 4-0 í eina leik dagsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Þetta var þriðji sigur liðsins í röð en Daniele De Rossi hefur unnið alla þrjá leiki sína síðan hann tók við stjórn liðsins af José Mourinho.

Rómverjar gátu vart byrjað leikinn betur en Lorenzo Pellegrini kom heimamönnum yfir strax á annarri mínútu leiksins þegar hann fylgdi eftir skalla Leandro Parades.

Um miðbik fyrri hálfleik fann Pellegrini svo Paulo Dybala inn á vítateig og Argentínumaðurinn tvöfaldaði forystuna. Staðan orðin 2-0 og þannig var hún í hálfleik þrátt fyrir að Roma hafi skorað eitt mark til viðbótar áður en flautað var til hálfleiks. Það var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu.

Matteo Marcenaro, dómari leiksins, dæmdi einnig vítaspyrnu á Rómverja í uppbótartíma en dró hana til baka eftir að hafa séð atvikið betur í skjánum á hliðarlínunni. Marcenaro dæmdi aðra vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik en að þessu sinni var hún á Cagliari og að þessu sinni stóð hann við ákvörðun sína.

Dybala fór á punktinn og kláraði leikinn fyrir heimamenn. Á 59. mínútu bætti Dean Huijsen fjórða markinu við fyrir Rómverja og þar við sat. Lokatölur í Róm 4-0 heimamönnum í vil.

Roma er komið upp í 38 stig í 5. sæti, aðeins stigi á eftir Atalanta sem á þó leik til góða í 4. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×