„Í 40 daga höfum við, mótmælendur á Austurvelli, staðið fyrir kyrrsetumótmælum, minnt á kröfur okkar og munum ekki hverfa héðan fyrr en þeim hefur verið mætt. Markmið okkar er skýrt: að koma á breytingum í málum er varða fjölskyldusameiningar og alþjóðlega vernd fyrir Palestínufólk á Íslandi,“ segir í yfirlýsingu frá No Borders.
Fólk er hvatt til þess að mæta á Austurvöll til að mótmæla.
„Mætum öll á Austurvöll fyrir utan Alþingi og sýnum ráðamönnum að við munum ekki draga úr krafti mótmæla okkar fyrr en fjölskuldurnar verða fluttar óhultar frá Gasa. Hver mínúta er mikilvæg; líf barnanna okkar og framtíð fjölskyldnanna eru í húfi. Ef ekki verður brugðist við verða engar fjölskyldur eftir til að sameina,“ segir í tilkynningunni en upplýsingar um mótmælið má finna hér.
Fjölskyldusameiningar hafa verið mikið til umræðu síðustu daga og hefur hópur fólks mótmælt samfleytt í 40 daga við Alþingi. Rúmlega 100 manns eru á Gasa sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Íslensk stjórnvöld hafa sagst ekki geta sótt þau yfir landamærin vegna erfiðra aðstæðna. Stjórnvöld á öðrum Norðurlöndum hafa komið fólki yfir landamærin. Greint var frá því í frétt RÚV í gær að sænsk yfirvöld hefðu komið 550 manns yfir landamærin við Egyptaland. Af þeim voru bæði ríkisborgara og dvalarleyfishafar.