Erlent

Lenti á Mars í síðasta sinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hér má sjá mynd af marsþyrlunni takast á loft. Hún gerir það aldrei framar.
Hér má sjá mynd af marsþyrlunni takast á loft. Hún gerir það aldrei framar. AP

Marsþyrlan Ingenuity hefur sungið sitt síðasta og mun ekki fljúga aftur. Þyrlan átti eingöngu að fljúga fimm sinnum og virka í einn mánuð en hún fór langt fram úr væntingum vísindamanna og hefur haldist á lofti í þrjú ár og flogið 72 ferðir.

Litla geimþyrlan Ingenuity flaug í fyrsta sinn á Mars 19. apríl 2021. Hún var flutt til plánetunnar um borð í vélmenninu Perserverance sem lenti á rauðu plánetunni í febrúar sama ár.

Markmið vísindamanna með þyrlunni var að komast að því og sanna að hægt væri að fljúga á Mars. Hún var svo notuð um nokkurt skeið til að finna leiðir fyrir Perserverance í gegnum landslag plánetunnar. 

Ingenuity uppfyllti drauma vísindamannanna og langt umfram það. Í heildina flaug hún í rúmar tvær klukkustundir og virkaði í tæp þrjú ár, 35 mánuðum lengur en til stóð. 

Fór langt fram úr væntingum

Nokkuð ljóst var þegar Ingenuity lenti í 72. sinn að þetta væri hennar síðasta lending.

„Þegar hún kom niður til lendingar var að minnsta kosti einn af koltrefjaspöðunum skemmdur. Við erum að kanna þann möguleika að spaðinn hafi rekist í jörðina,“ sagði Bill Nelson, yfirmaður NASA, á blaðamannafundi um þyrluna.

Þyrlan er fyrsta farartækið sem flýgur á öðrum hnetti með eigin afli. Andrúmsloftið á mars er mjög þynnra en andrúmsloft jarðarinnar en þéttleiki þess er í raun bara eitt prósent af því sem er hér á jörðinni. Á móti kemur að þyngdaraflið á Mars er einungis þriðjungur af þyngdarafli jarðar. 

Til þess að haldast á lofti þurftu þyrluspaðar Ingenuity að snúast 2400 sinnum á mínútu sem er um átta sinnum hraðar en hefðbundnar þyrlur á jörðinni.

„Það sem Ingenuity áorkaði fór langt fram úr því sem við töldum mögulegt,“ sagði Nelson um þyrluna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×