Fótbolti

For­skot Le­verku­sen niður í eitt stig eftir tor­sóttan sigur Bayern

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manuel Neuer varði vítaspyrnu í naumum sigri.
Manuel Neuer varði vítaspyrnu í naumum sigri. EPA-EFE/RONALD WITTEK

Þýskalandsmeistarar Bayern München unnu gríðarlega torsóttan 3-2 útisigur á Augsburg í efstu deild karla í knattspyrnu þar í landi í dag. Þá heldur gott gengi Stuttgart áfram með 5-2 sigri á RB Leipzig.

Heimamenn í Augsburg héldu að þeir hefðu komist yfir á 12. mínútu en því miður fyrir þá dæmdi myndbandsdómari leiksins mark Elvis Rexhbecaj af vegna rangstöðu. Það nýttu gestirnir sér en hinn 19 ára gamli Aleksandar Pavlović kom Bayenr yfir um miðbik fyrri hálfleiks.

Alphonso Davies tvöfaldaði forystuna þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik. Ermedin Demirović minnkaði muninn snemma í síðari hálfleik en Harry Kane kom gestunum aftur tveimur mörkum yfir skömmu síðar.

Heimamenn fengu gullið tækifæri til að koma sér aftur inn í leikinn undir lok venjulegs leiktíma en Manuel Neuer varði vítaspyrnu Sven Michel. Í uppbótartíma fékk Augsburg hins vegar aðra vítaspyrnu. Að þessu sinni fór Demirović og minnkaði muninn í aðeins eitt mark.

Nær komust heimamenn þó ekki og lokatölur 2-3. Bayern er nú aðeins stigi á eftir toppliði Bayer Leverkusen sem á þó leik til góða.

Deniz Undav skoraði þrennu þegar Stuttgart vann RB Leipzig 5-2 í dag. Sigurinn þýðir að Stuttgart er með 37 stig í 3. sæti, tíu minna en Bayern sem er sæti ofar. Leipzig er í 4. sæti með 33 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×