Fótbolti

Til­finninga­þrunginn Freyr í fyrsta leik sínum í Belgíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ástríðan skein í gegn þegar flautað var til leiksloka.
Ástríðan skein í gegn þegar flautað var til leiksloka. @kvkofficieel

Freyr Alexandersson byrjaði þjálfunarferil sinn í Belgíu með látum þegar lið hans KV Kortrijk vann óvæntan 1-0 útisigur á Standard Liege. Nú hefur félag hans birt gríðarlega tilfinningaþrungið myndband frá sigrinum þar sem heyra má hvað Freyr sagði við mannskapinn fyrir leikinn.

Það kom verulega á óvart þegar Freyr skipti Lyngby út fyrir Kortrijk. Eftir að hafa á einhvern ótrúlegan hátt haldið Lyngby í efstu deild Danmerkur á síðustu leiktíð þá var liðið að gera fínt mót þegar yfirstandandi tímabil er hálfnað.

Freyr fékk hins vegar tilboð frá Kortrijk, sem situr í botnsæti Belgíu og þarf á álíka kraftaverki að halda og Lyngby framkvæmdi á síðustu leiktíð. Freyr virðist elska áskoranir og hélt til Belgíu. Þar byrjar hann með látum.

„Níu mínútur strákar, níu mínútur í byrjunina á nýju upphafi. Við förum út á völl saman og við yfirgefum völlinn saman. Vinnið fyrir hvern annan, njótið þess. Farið út og brosið, njótið og farið út saman, komið inn saman og trúið því að við förum heim með þrjú stig. Njótið þess,“ sagði Freyr í ræðu sinni fyrir leik við mikið lófaklapp.

„Allt getur gerst, búist við hinum óvænta eins og þegar við skoruðum markið. Við komum saman og við förum saman. Trúið, vinnið fyrir hvern annan og klárið þetta verkefni,“ sagði Freyr ástríðufullur í hálfleik.

„Til hamingju, þið eigið þetta virkilega skilið. Með þessu hugarfari og þessari vinnusemi getum við gert magnaða hluti,“ sagði Breiðhyltingurinn Freyr að leik loknum. Ræðuna og myndband Kortrijk í tilefni sigursins má sjá hér að ofan.

Kortrijk er sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar, nú með 13 stig eða átta frá öruggu sæti. Neðstu fjögur lið belgísku úrvalsdeildarinnar fara í sérstakt umspil um hvaða lið fellur. Neðstu tvö liðin falla á meðan liðið í 14. sæti – því þriðja neðsta – fer í umspil við liðið í 3. sæti í B-deildinni um sæti í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×