Innlent

Hlaupi í Gríms­vötnum að ljúka

Árni Sæberg skrifar
Grímsvötn séð úr lofti.
Grímsvötn séð úr lofti. Vísir/RAX

Frá því að hlaupið náði hámarki í Gígjukvísl fyrir um það bil viku hefur vatnshæð þar farið lækkandi og er nú orðin svipuð og hún var fyrir hlaup. Talið er að nýr sigketill hafi myndast á svæðinu.

Þetta segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Þar segir jafnframt að hlaupórói sem mældist á jarðskjálftamæli á Grímsfjalli hafi líka lækkað og sé nú kominn niður í eðlilegt horf. Frá því á mánudaginn í síðustu viku hafi 21 jarðskjálfti mælst í Grímsvötnum, þar af tveir skjálftar yfir tveimur að stærð.

Í Grímsvatnahlaupinu 2021 hafi myndast sigketill, sem sé sprungin dæld á yfirborði jökulsins, suðaustur af Grímsfjalli. Ketillinn sé staðsettur nærri farvegi hlaupanna undir jöklinum. 

Starfsmenn Veðurstofunnar, sem voru á ferð á Vatnajökli í síðustu viku að sinna mælarekstri, hafi séð móta fyrir sigkatli á svipuðum stað. Við skoðun á gervitunglamyndum frá því í gær, 21. Janúar, sjáist tveir sigkatlar suðaustur af Grímsfjalli. Annar þeirra sé sá sem myndaðist í hlaupinu 2021 en hinn gæti hafa myndast í nýafstöðnu hlaupi eða verið eldri ketill sem hefur virkjast aftur. 

Sigkatlarnir séu nærri ferðaleið austur af Grímsfjalli og æskilegt sé að forðast ketillinn á ferð um þær slóðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×