Toppliðið jók for­skot sitt á toppi deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Diogo Jota var allt í öllu hjá Liverpool í dag.
Diogo Jota var allt í öllu hjá Liverpool í dag. Lewis Storey/Getty Images

Eftir markalausan fyrri hálfleik á Vitality-vellinum þá skoraði topplið ensku úrvalsdeildarinnar, Liverpool, fjórum sinnum og vann gríðarlega sannfærandi útisigur á Bournemouth.

Fyrri hálfleikur Bournemouth og Liverpool í dag var hreinlega hundleiðinlegur enda skapaði hvorugt lið sér svo gott sem eitt almennilegt marktækifæri. Það átti heldur betur eftir að breytast í síðari hálfleik en það tók gestina frá Bítlaborginni rétt rúmar þrjár mínútur að brjóta ísinn.

Darwin Núñez skoraði þá með fínni afgreiðslu eftir laglega sendingu frá Diogo Jota. Það var svo Jota sjálfur sem skoraði annað og þriðja mark Liverpool. Það fyrra eftir sendingu frá varamanninum Cody Gakpo og hið síðara eftir sendingu frá hægri bakverðinum Conor Bradley.

Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma lyfti Joe Gomez boltanum inn á teig þar sem Núñez rak stóru tána í knöttinn og þaðan rann hann í netið. Staðan orðin 0-4 og reyndust það lokatölur leiksins. 

Sigurinn þýðir að Liverpool komið með 48 stig á toppi deildarinnar. Manchester City kemur þar á eftir með 43 stig og leik til góða. Bournemouth er í 12. sæti með 25 stig. Níu frá fallsæti og 15 frá Evrópusæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira