Fótbolti

Sakar Onana um að van­virða lands­liðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
André Onana hefur verið gagnrýndur fyrir að mæta seint á Afríkumótið.
André Onana hefur verið gagnrýndur fyrir að mæta seint á Afríkumótið. getty/Robbie Jay Barratt

Emmanuel Adebayor, fyrrverandi leikmaður Arsenal, Tottenham, Real Madrid og fleiri liða, hefur sakað André Onana um að vanvirða kamerúnska landsliðið með því að mæta of seint á Afríkumótið.

Onana kom seinna til móts við kamerúnska landsliðið á Fílabeinsströndinni, þar sem Afríkumótið fer fram, þar sem hann var að spila með Manchester United gegn Tottenham á sunnudaginn. 

Onana kom þremur tímum fyrir leik Kamerún og Gíneu en fylgdist samt með honum uppi í stúku, eitthvað sem hann var afar ósáttur við.

Adebayor hefur lagt orð í belg og segir að Onana hafi ekki sýnt verkefni kamerúnska landsliðsins nógu mikla virðingu.

„Hann virti ekki Kamerún. Ég var leikmaður eins og hann og jafnvel þótt ég væri mikilvægasti leikmaður liðsins lét ég aldrei svona,“ sagði Adebayor.

„Það að þetta sé að gerast sýnir að það er vandamál til staðar, jafnvel innan knattspyrnusambandsins. Hann getur tapað miklu því hann hefur gert sig fráhverfan kamerúnsku stuðningsmönnunum sem og öðrum afrískum fótboltaáhugamönnum og án efa einhverjum samherjum sínum.“

Kamerún gerði 1-1 jafntefli við Gíneu á mánudaginn. Næsti leikur liðsins er gegn Afríkumeisturum Senegals á morgun.

Onana hefur ekki spilað með kamerúnska landsliðinu síðan á HM í Katar 2022. Þar var hann sendur heim eftir deilur við landsliðsþjálfarann Rigobert Song og hætti í kjölfarið í landsliðinu. Hann hætti hins vegar við að hætta fyrir Afríkumótið en óvíst er hvaða áhrif nýjustu vendingar hafa á stöðu hans í landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×