Fótbolti

Diouf reyndi að róa brjálaðan Onana niður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
El-Hadji Diouf reynir að róa André Onana niður.
El-Hadji Diouf reynir að róa André Onana niður.

André Onana, markvörður Manchester United, var afar ósáttur að vera utan hóps þegar Kamerún mætti Gíneu á Afríkumótinu í gær.

Onana spilaði með United í 2-2 jafnteflinu gegn Tottenham á sunnudaginn og flaug síðan til Fílabeinsstrandarinnar þar sem Afríkumótið fer fram.

Flestir bjuggust við því að Onana myndi spila leikinn gegn Gíneu í gær en hann var utan hóps þrátt fyrir að vera kominn þremur klukkutímum áður en flautað var til leiks. Og markvörðurinn var vægast sagt ósáttur.

„Ef ég var ekki að fara að spila eða vera í hóp af hverju kom ég hérna í einkaflugvél?“ öskraði Onana ítrekað.

Á myndbandi sem náðist af Onana fyrir leikinn gegn Gíneu sást El-Hadji Diouf, fyrrverandi landsliðsmaður Senegals og leikmaður Liverpool, reyna að róa markvörðinn niður. Diouf er ekki beint þekktur rólyndismaður svo óvíst er hversu vel honum gekk að tala Onana til.

Fabrice Ondoa, markvörður Nimes í Frakklandi, stóð í marki Kamerúns í leiknum gegn Gíneu í gær. Hann kom engum vörnum við þegar Mohamed Bayo kom Gíneu yfir á 10. mínútu. Franck Magri jafnaði fyrir Kamerún í upphafi seinni hálfleiks og þar við sat. Lokatölur 1-1.

Onana hefur ekki spilað með kamerúnska landsliðinu síðan á HM 2022. Þar var hann sendur heim eftir deilur við landsliðsþjálfarann Rigobert Song og hætti í kjölfarið í landsliðinu. Hann hætti hins vegar við að hætta fyrir Afríkumótið en óvíst er hvaða áhrif nýjustu vendingar hafa á stöðu hans í landsliðinu.

Næsti leikur Kamerúns á mótinu er gegn Afríkumeisturum Senegals á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×