Innlent

Á leið inn í Grinda­vík að sækja kindur

Margrét Björk Jónsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Sigrún Eggertsdóttir, fjárbóndi.
Sigrún Eggertsdóttir, fjárbóndi. Vísir/Sigurjón

Sigrún Eggertsdóttir, fjárbóndi er nú á leið inn í Grindavík í fylgd björgunarsveitarfólks til að sækja kindurnar sínar. Kindurnar hafa verið án matar frá því á laugardag og óljóst um ástandið á þeim. 

Sigrún býr í Kópavogi en ólst upp í Grindavík og á fjölskyldu þar. Hún segir það hafa verið mjög erfitt að fylgjast með atburðum síðustu mánaða og fylgjast með íbúum ganga í gegnum þær raunir sem fylgt hafa jarðhræringunum. 

Sigrún á um þrjátíu kindur sem hún fékk að sækja fljótlega eftir að Grindavík var rýmd þann 10. nóvember, en er nýbúin að fara með þær aftur til baka.

„Það var að birta til, það var verið að laga sprungur, atvinnurekstur að byrja aftur og fólk að flytja aftur til Grindavíkur. Það voru allir að halda í smá von. Svo auðvitað er erfitt að hafa farið með þær til baka núna sjá þetta gerast, erfitt að horfast í augu við að þurfa fara með þær aftur. Það er mjög erfitt.“

Óljóst með ástand fjárins

Sigrún segist ekki vita um ástand kindanna en þeim var síðast gefið vatn og hey á laugardag.

„Það eru fullir dunkar af vatni hjá þeim, það var rýmt á laugardagsnóttina og á laugardeginum fengu þær hey. Þetta ætti að vera í lagi.“

Ég held fastlega í vonina að það sé allt í góðu, kindur eru mjög þrautseigar. Þannig ég hef ekki miklar áhyggjur eins og er.

Sigrún hefur fengið aðgang að hesthúsi í Keflavík undir féð til bráðabirgða. Framhaldið liggur ekki fyrir.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að stefnt verði að því að koma öllum kindum úr Grindavík í dag. Því verkefni ætti að vera lokið í kringum kvöldmatarleytið. Talið er að um 350 kindur séu í bænum en einhverjar voru sóttar í gærkvöldi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×