Innlent

„Þetta lítur ekki nógu vel út“

Margrét Björk Jónsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að hrunið hafi úr þeim sprungum sem fyrir voru í bænum en ekki líti út fyrir að fleiri hafi myndast.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að hrunið hafi úr þeim sprungum sem fyrir voru í bænum en ekki líti út fyrir að fleiri hafi myndast. Vísir

Lögreglustjóri á Suðurnesjum segir ekki mikið um nýjar sprungur inni í Grindavík. Þær sprungur sem fyrir voru hafi hinsvegar stækkað. Forgangsatriði dagsins er að koma rafmagni og hita á austurhluta bæjarins.

 Í morgun óskuðu almannavarnir þess að þeir Grindvíkingar sem búi vestan Víkurbrautar skili til þeirra lyklum að húsum sínum svo hægt sé að kanna ástand hitakerfa fasteigna.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, segir verkefnið unnið í góðri sátt við íbúðareigendur í Grindavík.

„Vatni er hleypt á húsin en til að tryggja að ekkert fari úrskeiðis og vatn leki ekki um gólf hjá fólki, þurfa íbúðareigendur að koma til okkar lyklum. Mér sýnist það bara ganga vel.“

Óljóst sé hversu langan tíma verkefnið muni taka.

„Þetta er auðvitað verkefni sem tekur tíma, sjáum svo sem ekki fyrir endann á því. En það skiptir höfuðmáli að koma hita og rafmagni á þessi hús, og það er auðvitað það sem þetta snýst um í grunninn.“

Búfé flutt úr bænum í dag

Aðspurður um hvort til standi að koma búfé út úr bænum segir Úlfar það vera í undirbúningi. 

„Ég held að kindurnar séu bara í góðu ásigkomulagi og brottflutningur þeirra út fyrir hættusvæðið verður í dag. Ég geri ráð fyrir að þessi aðgerð klárist fyrir kvöldmatarleytið ef allt fer að óskum.“

Grétar Jónsson, formaður Fjáreigendafélags Grindavíkur fór til þess að sækja kindur sínar í gær en sér­sveit­ar­menn rík­is­lög­reglu­stjóra höfðu af­skipti af honum og lá við að upp úr syði. Grétar fékk þó á endanum leyfi til að sækja kindurnar í fylgd björgunarsveitamanna. Úlfar segir marga íbúa í erfiðari og viðkvæmri stöðu.

„Svo eru starfsmenn lögreglu sem hafa sín fyrirmæli, ég held að þetta leysts úr þessu farsællega þegar upp var staðið.“

Sprungur hafa „tútnað út“

Aðspurður um ástand bæjarins segist Úlfar hafa fengið upplýsingar í morgun um að ekki bæri mikið á nýjum sprungum á yfirborð bæjarins.

„Þetta eru allt sprungur sem eru þekktar, en það hefur hrunið úr þeim sumum, þannig þetta lítur kannski ekki nógu vel út.“

Þær hafa semsagt stækkað?

„Þær hafa eitthvað tútnað út, já.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×